Svo miklu meira en bara að hanga í tölvunni

CrossFit XY er fyrsta líkamsræktarstöðin sem stofnar rafíþróttadeild hér á …
CrossFit XY er fyrsta líkamsræktarstöðin sem stofnar rafíþróttadeild hér á landi en Arnar Hólm er einn þeirra sem kemur að stofnun þess. Ljósmynd/Samsett Unsplash

„Maður er búinn að sjá mikið af krökkum fá meira sjálfstraust, tilheyra meira félagslega og eignast vini. Þetta gerir svo miklu meira en bara það að þú sért að horfa á þetta sem utanaðkomandi og þau bara að hanga í tölvunni. Þetta er svo miklu stærri pakki,“ segir Arnar Hólm Einarsson, einn stofnenda nýrrar rafíþróttadeildar innan CrossFit XY, en hugmyndin er að blanda saman hugmyndafræði crossfit og rafíþrótta fyrir ungmenni.

Eigandi CrossFit XY, Svanhildur Vigfúsdóttir, tilkynnti stofnunina ásamt Arnari í facebookfærslu á föstudaginn var. Er þetta fyrsta líkamsræktarstöðin sem bætir rafíþróttadeild við starf sitt en nokkur íþróttafélög hér á landi hafa þegar stofnað slíkar deildir. 

Arnar segir að þeir sem standa fyrir utan rafíþróttirnar átti sig ekki á því hvað þetta er stór bransi og mikið mál.

„Það var að koma frétt frá einu stærsta liði [í tölvuleiknum] „Counter-Strike“ í heiminum í dag, Astralis. Þeirra fyrirliði er að stíga til hliðar í veikindaleyfi af því að það er svo mikið álag á stóra sviðinu,“ sagði Arnar. 

„Mig langar að gera þetta heilbrigt og félagslegt. Kenna krökkum hvernig er að vinna undir álagi þannig að ef einhver þeirra verður eitt af þessum núll komma eitthvað prósentum sem mun ná langt í þessu séu þau með góðan bakgrunn,“ sagði hann. 

Sjáðu allt viðtalið við Arnar í spilaranum hér að neðan.mbl.is