Fagnaði sjúkdómnum með veislu og skammast sín ekki

Bára Guðmundsdóttir, sem greind er með bólgusjúkdóminn Crohn's, sló til …
Bára Guðmundsdóttir, sem greind er með bólgusjúkdóminn Crohn's, sló til veislu í gær í tilefni alþjóðlegs dags bólgusjúkdóma. Vinkona hennar bakaði viðeigandi köku fyrir veisluna sem veislugestir fengu að gæða sér á. Ljósmynd/Aðsend

Bára Guðmundsdóttir er 23 ára Reykjavíkurmær sem greindist með bólgusjúkdóminn Crohn’s fyrir rúmu ári síðan. Crohn’s er langvinnur bólgusjúkdómur sem leggst á meltingarveginn sem þó er hægt að halda niðri.

Í gær, þann 19. maí, var alþjóðlegur dagur bólgusjúkdóma og ákvað Bára því að slá til veislu í tilefni dagsins. Sumum finnst kannski örlítið undarlegt að halda upp á eitthvað svona þar sem það er að sjálfsögðu ekki fagnaðarefni að greinast með sjúkdóm, en aðspurð sagði Bára að það væri alltaf skemmtilegra að gera það besta úr því sem lífið hendir í mann og í hennar tilfelli fyndist henni bara svo skemmtilegt að halda boð og fá tækifæri til þess að gera sér glaðan dag með nánum vinum, í staðinn fyrir að leyfa sjúkdómnum að taka yfir gleðina.

„Ég er svo ótrúlega fegin að þetta sé ekki eitthvað sem ég skammast mín fyrir, þó það væri örugglega auðvelt að upplifa það svoleiðis. Þetta er bara eins og þetta er og það er lítið í því að gera. Maður hefur alltaf völdin yfir því hvernig maður bregst við því sem lífið hendir í mann og í mínu tilfelli vil ég mæta því með jákvæðni og gleði.“ segir þessi magnaða unga kona. Það er án efa ofurkraftur að búa yfir því vopni sem jákvæðnin er og þykir mér Bára mikill innblástur í hugarfari og gjörðum. Vel gert Bára Guðmundsdóttir og áfram þú.

DJ Dóra Júlía finn­ur ljósa punkt­inn í til­ver­unni og flyt­ur góðar frétt­ir reglu­lega yfir dag­inn í út­varp­inu og á vefn­um í samstarfi við Íslatte.

mbl.is