„Þetta var alveg högg“

Friðrik Ómar viðurkennir að honum hafi brugðið þegar hann fékk …
Friðrik Ómar viðurkennir að honum hafi brugðið þegar hann fékk confetti-sprengju yfir sig í beinni útsendingu á laugardaginn þó að atriðið hafi verið planað enda hafi confetti-sprengjan verið extra þétt og kraftmikil auk þess sem Jógvan var aðeins of nálægt þegar hann miðaði sprengjunni yfir hann. mbl.is/​Hari Skjáskot af RÚV

Fjölmargir landsmenn fylgdust með RÚV á laugardaginn þar sem Eurobandið hélt eurovisionpartí í beinni útsendingu frá Hörpu. Eitt atriði virðist þó hafa slegið í gegn umfram önnur á netinu, en þar sést Friðrik Ómar kynna næsta atriði þegar confetti-sprengja springur yfir hann með þeim afleiðingum að hluti hennar endar meðal annars uppi í honum. Netverjar hafa síðan deilt myndskeiði af atvikinu í gríð og erg á netinu og virðast margir hafa skemmt sér vel yfir því. Margrét Erla Maack var ein þeirra sem deildu myndbandi af atvikinu á Twitter.

En var atvikið eins óvænt og það lítur út fyrir að vera? Friðrik Ómar viðurkennir að svo hafi ekki verið í samtali við K100.is.

Jógvan nýtti sér tveggja metra regluna

„Það er smá leiðinlegt að segja frá því að þetta var nú „prodúserað“. En þetta er svipað og þegar maður setur brauðsneið í brauðrist og horfir svo á hana. Þér bregður alltaf jafn mikið samt þegar hún loksins hoppar upp,“ segir Friðrik. „Ég gerði þetta fyrst við Jógvan í upphafsatriðinu og pælingin var alltaf sú að svo kæmi hann og hefndi sín. Sem hann gerði en manni bregður alltaf þó að maður viti að þetta sé að koma.

En þær eru svo mismunandi þessar bombur. Þessi var mjög þétt þannig að þetta var alveg högg,“ bætir hann við og staðfesti að hann hefði einmitt fengið hluta af sprengjunni upp í sig.

Skjáskot af RÚV

 „Svo misskildi Jógvan aðeins tveggja metra regluna. Hann nýtti hana og var aðeins of nálægt. Sem var líka bara skemmtilegt,“ segir tónlistarmaðurinn hlæjandi. „Þetta var partur af prógramminu en svo heppnaðist þetta bara svona fullkomlega og varð svona eðlilegt.“

Friðrik Ómar segir eurovisionpartíið hafa gengið frábærlega en viðurkennir að þetta hafi verið mikil vinna.

„Við vorum að skipta mikið um föt og sungum bakraddir á bak við á meðan við vorum að skipta um föt þannig að maður stoppaði ekki. Ég er með blöðrur á fjórum tám. Þetta var maraþon.

Þetta var bara ótrúlega gaman að gera þetta af þessari stærðargráðu og ótrúleg öll viðbrögðin. Við fengum alveg rosaleg viðbrögð.“

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist