Gengi sameinast og útvega mat fyrir fátæka

Fjöldi fólks býr við mikla fátækt í Cape Town og …
Fjöldi fólks býr við mikla fátækt í Cape Town og hefur þurft að treysta á matargjafir frá ýmsum samtökum. Nú hafa gengi í bænum tekið höndum saman til að hjálpa fólki á þessum erfiðu tímum. AFP

Svo virðist sem erfiðar aðstæður geti sameinað fólk sem aldrei fyrr. Ég hef talað um þetta áður og höfum við séð ótrúlegustu fréttir af magnaðri samstöðu ólíklegustu einstaklinga. Í aðstæðum sem þessum gefst líka tími til að fjarlægja sig aðeins frá fyrri hugsanahætti og mögulega til að grafa gamlar stríðsaxir og slökkva gamla elda.

Erfiðleikar geta sett hlutina í stærra samhengi og mögulega áttar maður sig á því að tilfinningar á borð við reiði og hatur eru eitthvað sem gera okkur nákvæmlega ekkert gott. Ég las eina afar sérstaka en á sama tíma mjög jákvæða frétt frá Cape Town í Suður-Afríku. Svokölluð gengi í borginni sem áður áttu í miklum erjum hafa samið um vopnahlé sín á milli.

Var þetta ákveðið til þess að geta sameinast í því að útvega mat fyrir þá fátæku sem eiga um sárt að binda á tímum sem þessum. Þótt það geti kannski stundum verið erfitt að sjá það, þá getur margt jákvætt og uppbyggilegt sprottið upp þegar á reynir. Þetta fær kannski einhverja til þess að velta því fyrir sér hvers vegna átök og ofbeldi þurfa að vera til staðar þegar hægt er að gera eitthvað skilvirkara og betra sem lætur heildinni líða mikið betur!

DJ Dóra Júlía finn­ur ljósa punkt­inn í til­ver­unni og flyt­ur góðar frétt­ir reglu­lega yfir dag­inn í út­varp­inu og á vefn­um.

mbl.is