Amma spilar tölvuleiki og gefur góð ráð

Amman Michelle Statham, eða TacticalGramma eins og hún kallar sig, …
Amman Michelle Statham, eða TacticalGramma eins og hún kallar sig, sker sig úr hópi tölvuleikjaspilara að því leytinu til að á hverjum einasta degi hlustar hún á vandamál þeirra sem fylgjast með henni. Skjáskot

Ein öflug amma að nafni Michelle Statham spilar tölvuleiki á borð við Call of Duty í beinni útsendingu frá kjallara barnabarns síns, þar sem hún er búsett. Notast hún við nafnið TacticalGramma eða bara Gramma (sem er slangur af grandma, enska heitinu fyrir amma). Vinsældir þess að streyma tölvuleikjaspilun hafa aukist gífurlega undanfarin ár, þar sem fjöldinn allur af fólki fylgist með öðrum leikmönnum spila tölvuleiki og á samskiptaforritum á borð við Facebook geta aðrir tekið þátt og verið í beinni með þeim sem spila.

TacticalGramma sker sig úr hópi tölvuleikjaspilara að því leytinu til að á hverjum einasta degi hlustar hún á vandamál þeirra sem fylgjast með henni. Þeir geta sent inn athugasemdir og fyrirspurnir nafnlaust og skapar það því öruggt umhverfi fyrir fólk til þess að tala opinskátt um vandamálin sín. Þessi frábæra amma hlustar, reynir að róa fólk niður, gefur góð ráð og hefur þetta skilað sér mjög vel.

Eiginmaður hennar sagði í viðtali við CNN að hún hafi náð að hjálpa ótrúlega mörgum, allt frá ungum og einhleypum mæðrum og háskólanemum til þeirra sem fundið hafa fyrir miklum kvíða eftir að Covid-19 skall á. Hann segir hana hlusta og annast vandamál hvers og eins á sama tíma og hún spilar tölvuleiki. Ótrúlega frumleg og skemmtileg leið til þess að spila tölvuleiki og hér er greinilega um mikinn snilling að ræða. Ömmur eru svo magnaðar og mér finnst alveg ótrúlega fallegt að geta sýnt svona einstakan ömmukærleik í garð svona ótalmargra.

DJ Dóra Júlía finn­ur ljósa punkt­inn í til­ver­unni og flyt­ur góðar frétt­ir reglu­lega yfir dag­inn í út­varp­inu og á vefn­um.

mbl.is