„Drasl og lélegt“ og á topp tíu á Deildu

Jóhannes Haukur og Katla Margrét fara með aðalhlutverk í nýrri …
Jóhannes Haukur og Katla Margrét fara með aðalhlutverk í nýrri grín-sápuóperu, Sápunni, á Stöð 2. Ljósmynd/K100

„Sápuóperan og „sitcomið“ er drasl og er lélegt. Og á að vera lélegt. Við erum í rauninni að gera grín af þessu formi og hvað þetta getur oft verið hallærislegt og klisjukennt,“ sagði Jóhannes Haukur Jóhannesson, leikari í samtali við Ísland vaknar en hann mætti í morgunþáttinn í morgun ásamt Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur og ræddi um fyrstu sápuóperu Íslands, Sápuna sem þau fara með aðalhlutverk í.

Fyrsti þáttur Sápunnar var frumsýndur á föstudaginn í síðustu viku en annar þáttur er sýndur á Stöð 2 í kvöld, klukkan 19:10. Ásamt Kötlu og Jóhannesi leika Aron Már Ólafsson og Arnar Jónsson aðalhlutverk í þáttunum. 

„Til þess að varpa ljósi á þetta þá erum við með þetta „sitcom“ og það eru karakterar og saga í gangi. En þess á milli hoppum við alltaf í handstýrðar myndavélar sem taka upp það sem gerist á bak við tjöldin þar sem við leikararnir erum að „díla“ við allskonar á bak við tjöldin og við það hvað þetta er mikið drasl,“ sagði Jóhannes. 

Hægt er að sjá þættina í línulegri dagskrá á Stöð 2 sem er opin öllum en fyrsti þátturinn er í heild sinni inni á Vísi

Jóhannes bætti við, kíminn í bragði í lokinn, að þættirnir væru líka á topp tíu inni á sjóræningjasíðunni Deildu.net og uppskar hlátur í stúdíóinu.  „Við erum á topp tíu þar og mér finnst það frábært,“ sagði hann.

Horfðu á Kötlu og Jóhannes ræða um Sápuna í spilaranum hér að neðan. 

 

mbl.is