Hefði ekki verið glöð vitandi hvað væri fram undan

DJ Dóra Júlía hefur þurft að sjá eftir mörgum giggum …
DJ Dóra Júlía hefur þurft að sjá eftir mörgum giggum eins og aðrir skemmtikraftar og tónlistarfólk vegna kórónuveirunnar en hún segir tímabilið hafa kennt sér svo mikið í Ljósa punktinum á K100. mbl.is/Elsa Katrín Ólafsdóttir

Við höfum upplifað vægast sagt óvanalega tíma undanfarna tvo mánuði og flestir líklega farið í gegnum allan tilfinningaskalann. Það er ekkert grín að þurfa að eyða miklum tíma með sjálfum sér og eiginlega neyðast til þess að líta inn á við og í kjölfar þess verða nánari sjálfum sér en nokkru sinni fyrr. Við höfum séð alls konar fólk haga sér mismunandi. Sumir hafa jú verið kjánalegir og ekki sýnt mikinn sóma en svo hafa margir aðrir sýnt ótrúlegt hugrekki, góðmennsku, samstöðu og hlýju. Mér finnst alveg magnað að ég hafi átt svona auðvelt með að finna eitthvað jákvætt til að skrifa um á hverjum einasta degi. Það hefur verið virkilega áhugavert sem og gott fyrir sálina að hafa jákvæðnina í forgrunni og ég finn mikinn mun á mínu eigin sálarlífi.

Ég hef oft gerst sek um að mikla hlutina svakalega fyrir mér og valið að sjá neikvæðar hliðar þegar eitthvað jákvæðara var samt beint fyrir framan mig, en það er auðvitað það sem gerir okkur mannleg. Við getum ekki alltaf valið nákvæmlega hvernig okkur líður, en við getum haft meiri áhrif á það en marga grunar. Í samkomubanninu hef ég reynt að hugleiða á hverjum einasta degi, með appi á símanum mínum þar sem kvennmannsrödd stjórnar hugleiðslunni og kemur inn á mismunandi punkta sem geta verið gott veganesti inn í lífið. Það gerir mismikið fyrir mig og stundum nenni ég því ekki neitt, en til lengri tíma litið finnur maður breytinguna innra með sér. Langvarandi áhrif hugsa ég. Hugsanirnar okkar eru svo ótrúlega kraftmiklar og mér finnst áhugavert að velta því fyrir mér að við getum nálgast sambærilegt ástand með svo ólíkum hugsanahætti. Fyrir covid var ég að gigga rosalega mikið og allt var stanslaust á fullu.

Ef einhver hefði sagt mér í ársbyrjun að 2020 væri að fara á allt annan veg en ég væri búin að plana það, og að öllum giggum fram undan sem ég hlakkaði mikið til yrði aflýst þá hefði ég eflaust ekki verið glöð. En svo gerast hlutirnir og maður einhvern veginn aðlagast. Því við vitum hverju við getum stjórnað og hverju við getum ekki stjórnað. Og það sem við getum stjórnað er hvernig við bregðumst við, sem kennir manni svo mikið! Það er líka alltaf meira pláss fyrir jákvæðar hugsanir, umburðarlyndi og góðmennsku. Við sjáum ótalmörg dæmi um það núna í því ástandi sem hefur ríkt um allan heim.

Ég vona að við tökum allt sem við höfum lært á þessum skrítnu tímum með okkur inn í framtíðina og leyfum því að efla okkur og styrkja. Það er svo ótrúlega gaman að þroskast og læra. Lífið er ferðalag sem einkennist af hæðum og lægðum en við förum í gegnum það með okkur sjálfum þannig að ég vona að við leyfum okkur að læra að vera besti ferðafélagi sem við getum hugsað okkur! 

DJ Dóra Júlía finn­ur ljósa punkt­inn í til­ver­unni og flyt­ur góðar frétt­ir reglu­lega yfir dag­inn í út­varp­inu og á vefn­um.

mbl.is