„Hvernig líst þér á: „Það er kominn Helgi“?“

Helgi Björns skemmti þjóðinni í sjöunda sinn í samkomubanninu með …
Helgi Björns skemmti þjóðinni í sjöunda sinn í samkomubanninu með sjónvarpstónleikum á laugardaginn. mbl.is/Mummi Lu

„Hugmyndin var náttúrlega bara að reyna að hafa gaman og gleðjast í þessu ástandi þar sem allir voru heim hjá sér,“ sagði Helgi Björns í viðtali hjá Sigga Gunnars og Loga Bergmann í Síðdegisþættinum á K100 eftir að hann skemmti þjóðinni í sjöunda sinn í samkomubanninu á laugardagskvöldið síðastliðið með tónleikum heima í stofu. 

Sagði hann hugmyndina um tónleikana „Heima með Helga“ hafa upphaflega komið frá Ítalíu.

„Það má segja að hugmyndin hafi fæðst í gegnum Facebook vina okkar á Ítalíu sem voru byrjuð að streyma og klappa úti á svölum og syngja og reyna að kæta hvert annað í þessu skrítna ástandi,“ sagði Helgi. 

Barst talið að því hvort Helgi gæti tekið að sér að sjá um meira sjónvarpsefni og stakk Siggi Gunnars upp á að Helgi myndi byrja nýjan sjónvarpsþátt byggðan á sama ramma og „Heima með Helga“ sem gæti haldið áfram út haustið. 

„Hvað myndir þú skíra hann þá?“ spurði Helgi Sigga þá kíminn í bragði. „Bara Helgi og félagar eða eitthvað,“ sagði Siggi þá.

„Hvernig líst þér á: „Það er kominn Helgi“?“ spurði Helgi hlæjandi og uppskar hlátur í stúdíóinu. 

Hlustaðu á allt viðtalið við Helga á K100 í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is