Víði og Þórólfi hrósað fyrir jákvæða karlmennsku

Víði og Þórólfi er báðum hrósað fyrir að vera fyrirmyndir …
Víði og Þórólfi er báðum hrósað fyrir að vera fyrirmyndir fyrir jákvæða karlmennsku á facebooksíðu Karlmennskunnar. Ljósmynd/Samsett: Lög­regl­an/Skjáskot/RÚV

Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnalækni, og Víði Reyn­issyni, yf­ir­lög­regluþjóni hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra er hrósað sérstaklega í facebooksíðu Karlmennskunnar fyrir að vera fyrirmyndir jákvæðrar karlmennsku. Kemur þar fram að þeir hafi báðir sýnt að karlmenn í valdastöðum þurfi ekki að byggja hegðun sína eða styrkja stöðu sína á íhaldssömum karlmennskuhugmyndum. Þeir virðist sækja frekar í, það sem mætti kalla, jákvæða karlmennsku.

Meðfylgjandi með færslunni er mynd af Víði eftir að honum var færð afmæliskaka í tilefni af afmæli hans á upplýsingafundi almannavarnardeildarinnar. Lét hann þau ummæli falla í kjölfarið að hann fengi „nú bara tár í augun“. Einnig er meðfylgjandi mynd af Þórólfi þar sem hann tók brekkusöng í þættinum Vikunni með Gísla Marteini. 

Báðir hafa þeir staðið í ströngu undanfarnar vikur í framlínu í bar­átt­unni gegn kór­ónu­veirunni.

„Víðir hefur í tvígang (hið minnsta) talað um tilfinningar sínar og að hafa tárast. Eitthvað sem íhaldsamar karlmennskuhugmyndir hafa ekki leyft. Víðir hefur einnig beðist afsökunar á orðum sínum sem komu öðrum illa. Það er líka sjaldgæft og erum við mun vanari að karlar réttlæti orð sín, [af]saki sig eða víkja sér undan. Þórólfur sýnir í verki að valdakarlar þurfa ekki að taka sig of alvarlega heldur mega vera mennskir, alþýðlegir,“ segir í facebookfærslunni.

 Facebooksíðan Karlmennskan og samnefndur vefur, sem er í umsjón Þorsteins V. Einarssonar meistaranema í kynjafræði við Háskóla Íslands, varð til í kjölfar samfélagsmiðlaátaksins #karlmennskan á Twitter í mars 2018 en undir myllumerkinu deildu hundruðir karlmanna reynslusögum af því að hafa upplifað neikvæða pressu frá karlmennskuhugmyndum. 

mbl.is

#taktubetrimyndir