Tvær milljónir að koma fjölskyldunni til Íslands

„Við athuguðum málið og það er mjög lítið um flug …
„Við athuguðum málið og það er mjög lítið um flug og það sem er til er mjög dýrt. Þannig að það að skutlast heim með fjölskylduna fyrir okkur kostar tæpar tvær milljónir eins og staðan er núna,“ sagði Svavar Halldórsson sem býr ásamt fjölskyldu sinni á Ítalíu þar sem strangt útgöngubann er í gildi. mbl.is/Styrmir Kári

Það að fljúga til Íslands frá Norður-Ítalíu með fimm manna fjölskyldu um þessar mundir kostar hátt í tvær milljónir króna. Þetta segir Svavar Halldórsson í myndviðtali í morgunþættinum Ísland vaknar á K100. Hann er búsettur á Norður-Ítalíu ásamt eiginkonu sinni Þóru Arnórsdóttur og þremur börnum en þar er enn í gildi strangt útgöngubann vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

„Við athuguðum málið og það er mjög lítið um flug og það sem er til er mjög dýrt. Þannig að það að skutlast heim með fjölskylduna fyrir okkur kostar tæpar tvær milljónir eins og staðan er núna,“ sagði Svavar sem virtist sakna heimalandsins en hann klæddist landsliðstreyju Íslands í myndviðtalinu. „Ef fólk finnur einhverjar fallegar hugsanir með vorvindinum gætu þær verið frá okkur komnar,“ sagði hann.

Svavar sagði að staðan á fjölskyldunni væri „ljómandi góð“ en staðan á landinu öllu verri. Kórónuveirufaraldurinn sem geisað hefur í landinu virtist ætla ganga hægar niður en menn hefðu vonað. Útgöngubann hefur verið í gildi á Ítalíu síðan snemma í mars og hefur það nú verið framlengt til 3. maí.

Sagði Svavar að frábært veður hefði verið á Ítalíu í heila viku en vitanlega væri bannað að fara út og því bara hægt að njóta sólarinnar af svölunum.

„Það eru háar sektir ef menn hætta sér út fyrir hússins dyr. Allt upp í fimm þúsund evru sektir sem menn geta fengið fyrir að vera að þvælast,“ sagði Svavar. 

Útgöngubannið farið að hafa áhrif 

Sagði hann að útgöngubannið og einangrunin væru nú farin að hafa einhver áhrif á fjölskylduna sem verði tíma sínum meðal annars í að spila saman rommí. 

„Við fundum upp nýja tegund sem við köllum slétt-rommí. Þá þarftu að fá akkúrat þúsund til að vinna. Það er mjög gott til að drepa tímann,“ sagði Svavar.

„En svona grínlaust þá er það sem þetta gerir að þetta dregur svolítið úr manni. Maður sefur lengur en ella. Ég er búinn að hlusta á ósköpin öll af hlaðvörpum, lesa nokkrar góðar bækur og svo framvegis. En að sofa tólf tíma og leggja sig svo í tvo tíma eftir hádegismat!“ sagði Svavar.

Horfðu á allt viðtalið við Svavar í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is

#taktubetrimyndir