Fleiri spila tölvuleiki til að sinna félagslegum þörfum

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP CCP

Tölvuleikir virðast vera að verða sívinsælli vettvangur fólks til félagslegra samskipta nú þegar raunveruleg samskipti eru af skornum skammti vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Vikuleg sala á tölvuleikjum hefur meðal annars aukist um allt að  60% á síðustu vikum að því er fram kemur í umfjöllun BBC. Virðist sérstök aukning vera á sölu leikja þar sem hægt er að vera í samskiptum við aðra spilara.

Fyrir 14. mars skráðu um 7.000 manns sig fyrir nýjum reikningi í tölvuleiknum Eve Online á hverjum degi. 14. mars hækkaði sú tala í 11.000. Þetta staðfestir Hilmar Pétursson, framkvæmdarstjóri tölvuleikjarisans CCP, í samtali við BBC í dag.

„Leikurinn okkar er frægur fyrir að vera mjög félagslegur,“ segir hann. „Netflix og allt svoleiðis er sniðugt til að eyða tíma en það gefur þér ekki félagsleg samskipti og fólk þráir félagsleg samskipti.“

Hilmar bendir á að Eve Online sé mjög krefjandi leikur sem hvetji fólk til að vinna saman í hópum til að takast á við ýmsar áskoranir. Þetta segir hann að hjálpi spilurum að mynda vinskap.

BBC greinir frá því að fólk sé jafnvel farið að halda partí í tölvuleikjum. Bretinn Chris Conway hafði skipulagt að koma vini sínum á óvart með afmælisveislu áður en kórónuveirufaraldurinn barst til Bretlands með tilheyrandi samkomubanni. Ákvað Conway þá að halda veisluna í tölvuleiknum Animal Crossing: New Horizons. 

Animal Crossing er, eins og Eve Online, mjög félagslegur tölvulegur, og gátu veislugestir því spjallað og notið þess að vera saman í tölvuleiknum.

„Það var mjög gott að fara bara í leikinn og hanga saman,“ sagði Conway en í leiknum geta spilarar brallað ýmislegt saman, til dæmis spilað á hljóðfæri og farið að veiða.

Í tölvuleiknum Animal Crossing geta spilarar brallað ýmsilegt saman og …
Í tölvuleiknum Animal Crossing geta spilarar brallað ýmsilegt saman og jafnvel haldið partí. Flickr/BagoGames

Tölvuleikir fullnægja ekki öllum okkar þörfum

Andrew Przybylski, prófessor í Oxford Internet Institute í Bretlandi, segir að æ fleiri snúi sér nú að tölvuleikjum til að fullnægja ákveðnum sálfræðilegum þörfum, meðal annars félagslegum samskiptum. Þar að auki eru þarfir eins og það að vera við stjórn og geta tekið ákvarðanir um það sem maður gerir.

Hann bætir þó við að tölvuleikir séu ekki hannaðir til að fullnægja öllum okkar þörfum. Þeir koma til dæmis ekki fullkomlega í staðinn fyrir félagsleg samskipti og þeir kosta peninga og eru því ekki aðgengilegar þeim sem ekki hafa efni á þeim. En tölvuleikir geta veitt þeim ákveðna fróun sem hafa aðgang að þeim.

mbl.is