Litla-Grá og Litla-Hvít una sér vel í samkomubanninu

Litla-Grá og Litla-Hvít virðast una sér vel í umönnunarlauginni í …
Litla-Grá og Litla-Hvít virðast una sér vel í umönnunarlauginni í Vestmannaeyjum en hægt er að geta sér til um að þær vonist til að komast í sjókvínna í Klettsvík sem fyrst. Ljósmynd/Sea Life Trust

Umönnunarteymi Sea Life Trust sem sér um að annast mjaldrana, Litlu-Grá og Litlu-Hvít, sem dvelja nú í umönnunarlaug í Þekkingarsetri Vestmannaeyja, hafa tekið upp á því að taka myndbönd í beinni útsendingu á Facebook þar sem hægt er að fylgjast með mjaldrasystrunum í samkomubanninu.

Í nýju myndbandi frá því á föstudag frá umönnunarteyminu er hægt að kynnast Litlu-Grá og Litlu-Hvít betur, en meðal annars sést hversu sólgnir mjaldrarnir eru í síld.

Harry, einn úr umönnunarteyminu, segir síld vera eins og eins konar sælgætisstykki eftir matinn. Segir Harry frá því að Litla-Grá fái um 26 kíló af fiski á dag. 

Hægt er að sjá myndbandið í spilaranum hér fyrir neðan.

Mjaldrarnir komu til landsins frá Kína hinn 19. júni í fyrra og virðast una sér vel í umönnunarlauginni. Nú styttist í að mjaldrarnir fái þó að fara í sérhannað griðasvæði sitt í Klettsvík sem er fyrsta sinnar tegundar fyrir mjaldra í heiminum. Búist er við því að mjaldrarnir verði færðir í sjókvína seinna í vor samkvæmt facebooksíðu Sea Life Trust.

mbl.is