Ekkert samsæri gegn vegan-pylsusölum

Steinþór Skúlason forstjóri Sláturfélags Suðurlands segir ónákvæm svör starfsmanns í …
Steinþór Skúlason forstjóri Sláturfélags Suðurlands segir ónákvæm svör starfsmanns í tölvupóstsamskiptum við Jömm hafi orðið til miskilnings varðandi afgreiðslu sinneps. Vill hann koma á framfæri að tvær pakkningar SS sinneps standi öllum til boða, hvort sem SS pylsur séu seldar eða ekki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, segir að ónákvæm svör starfsmanns hafi orðið til þess að það hafi litið út fyrir að vegan-skyndibitastaðnum Jömm hefði verið neitað um afgreiðslu SS sinneps í tölvupóstsamskiptum við heildsölu fyrirtækisins. Vísar hann því alfarið á bug.

Segir hann að fyrirtækið bjóði upp á þrjár mismunandi pakkningar af sinnepi. Tvær þeirra, 350 gramma brúsar og 5 lítra brúsar, sem væru í svokölluðu opnu vöruvali, stæðu öllum til boða en að ein þeirra, 750 gramma brúsar, væru aðeins í sölu fyrir þá sem selja SS-pylsur. Það hafi verið þessir 750 gramma brúsar sem hafi komið til umræðu í tölvupóstsamskiptum á milli Jömm og SS.

Mistök í samskiptum

„Mistökin sem okkar sölumaður gerir þegar hann svarar tölvupóstinum er að hann bendir ekki á að hún geti keypt tvær aðrar pakkningar. Síðan verður til þetta drama að við séum að neita að selja sinnep. Það er ekki rétt,“ segir Steinþór. „Okkar sölumaður svarar ónákvæmt en síðan túlka þau [Jömm] þetta þannig að við neitum að selja sinnep yfir höfuð ef  fólk kaupir ekki pylsur,“ segir hann.  

„Þetta er bara alveg eins og ef einhver myndi kaupa af okkur pylsubréf. Við myndum ekki vilja að einhver keypti af okkur pylsubréf og setti eitthvað annað en SS pylsur í það. Þá væri verið að blekkja neytandann,“ segir Steinþór.

„Það sem er að gerast núna er að það er þetta COVID-ástand og það er verið að færa fólk á milli og fólk gengur í þau störf sem þarf. Þannig að þessi sem var að svara var kannski ekki sá sem að öllu jöfnu er í þessu. Þess vegna svaraði hann ekki nákvæmt,“ segir Steinþór. 

Vill hann koma því á framfæri að SS hafi ekkert á móti því að vegan-matsölustaðir, eins og Jömm, kaupi sinnep af þeim. 

„Þeim er alveg guðvelkomið að kaupa sinnep eins og þeir vilja af okkur, af þessu sem er í almennri sölu,“  segir hann. „Það eru engar takmarkanir á því. Allt sem er í opnu vöruvali geta allir keypt. Það er ekkert samsæri í gangi eins og mætti lesa úr þessu,“ bætir hann við.

mbl.is