„Þetta er algjör viðbjóður þessi pest“

„Það halda allir að maður sé að horfa á sjónvarpið …
„Það halda allir að maður sé að horfa á sjónvarpið og gera eitthvað en manni líður svo illa að maður getur ekki horft á sjónvarpið. Maður getur ekki lesið bók. Maður bara skelfur annað hvort úr kvölum, kulda eða hita svo dögum skiptir,“ sagði Helgi Jóhannesson lögrfræðingur sem greindur er með COVID-19 öndunarfærasjúkdóminn sem kórónuveiran skæða veldur.

Helgi Jóhannesson lögfræðingur er nú á fjórtánda degi einangrunar en hann er greindur með öndunarfærasjúkdóminn COVID-19. Vill hann hvetja fólk eindregið til að fylgja settum reglum og reyna eftir fremsta megni að komast hjá því að smitast og smita aðra.

„Þetta er fjórtándi dagur sem ég er búinn að vera veikur og þetta er viðbjóður. Þannig að ég segi bara við fólk sem er ekki smitað: ekki reyna að vera með einhverja stæla. Farið bara eftir þessum reglum vegna þess að þið viljið ekki fá þetta. Þetta er algjör viðbjóður þessi pest,“ sagði Helgi í samtali við morgunþáttinn Ísland vaknar í morgun.

„Málið er að ef ég hefði bara verið læstur inni hefði þetta verið í lagi. Ég er búinn að vera að óska eftir því að ég geti látið mér bara leiðast. En þessi pest er svo leiðinleg og manni líður svo illa að maður nýtur þess ekki að gera neitt,“ sagði hann.

Gat ekki horft á sjónvarpið fyrr en á tíunda degi

„Það halda allir að maður sé að horfa á sjónvarpið og gera eitthvað en manni líður svo illa að maður getur ekki horft á sjónvarpið. Maður getur ekki lesið bók. Maður bara skelfur annaðhvort úr kvölum, kulda eða hita svo dögum skiptir. Svo heldur maður að maður sé að verða góður af því að hitinn lækkar eitthvað en þá kemur hann kannski bara aftur daginn eftir. Þannig að þetta er algjör viðbjóður,“ sagði Helgi og bætti við: „Svo missir maður bragðskynið, maður missir húmorinn, maður missir náttúruna og lífsviljann.“

Vildi Helgi biðla til þeirra sem þurfa að vera heima í sóttkví en eru ekki veikir um að hætta að kvarta og benti á að það hefði ekki verið fyrr en á tíunda degi sem hann gat loks horft á sjónvarpið. 

„Það er fólk sem hefur orðið miklu veikara en ég en í alvöru, þó að það hljómi eins og maður sé alltaf að kvarta og kveina, það er ekkert grín að fá þetta,“ sagði Helgi.

 Hlustaðu á viðtalið við Helga í spilaranum hér að neðan.

mbl.is