Íslenskt lambakjöt til Kína

Í prufusendingunni voru einungis heilir lambaskrokkar, mest um 14-16kg.
Í prufusendingunni voru einungis heilir lambaskrokkar, mest um 14-16kg. Mynd: Aðsend

Fjallalamb hf. á Kópaskeri afgreiddi í síðustu viku um 20 tonna prufusendingu af íslensku lambakjöti á Kínamarkað. Skráningarferlið var langt og strangt en unnið hefur verið að þessum áfanga í um tvö ár, að sögn Björns Víkings Björnssonar, framkvæmdastjóra Fjallalambs.

„Kröfur sem Kínverjar gera til gæða eru mjög miklar. Eins og staðan er í dag er Fjallalamb eina íslenska fyrirtækið sem hefur leyfi til að senda afurðir sínar til Kína en fyrirtækið naut aðstoðar sölufélags sem hefur mikla reynslu við að koma fiskafurðum á Kínamarkað,“ segir Björn Víkingur í samtali við K100.is.

Björn Víkingur Björnsson, framkvæmdastjóri Fjallalambs.
Björn Víkingur Björnsson, framkvæmdastjóri Fjallalambs. Mynd: Aðsend.

Í prufusendingunni voru einungis heilir lambaskrokkar, mest um 14-16kg. Kínversku kaupendurnir munu gera sínar tilraunir á kjötinu til að ganga úr skugga um að það falli vel að þeirra hefðbundnu matargerð. Aðspurður telur Björn Víkingur að kjötið í þessari prufusendingu muni að mestu leiti fara á veitingastaðamarkaðinn í Kína, og þá aðallega á fínni veitingastaði.

„Í Kína er neysla lambakjöts mest um haust og vetur þar sem neysla lambakjöts er talin vera góð til að takast á við kulda. Eitthvað sem við Íslendingar þekkjum vel. Vonandi verður framhald á þessum viðskiptum á næstu árum.“

mbl.is