Bíómyndir sem þú ættir ekki að horfa á núna

Kvikmyndaáhugafólk sem vill nota samkomubannið til að horfa á kvikmyndir …
Kvikmyndaáhugafólk sem vill nota samkomubannið til að horfa á kvikmyndir um heimsfaraldra ætti að hafa úr nógu að velja. Skjáskot: Contagion/Carriers

Nú þegar heimurinn stendur frammi fyrir raunverulegum heimsfaraldri hafa margir tekið upp á því að horfa á ýmsar hryllings- og dramakvikmyndir sem fjalla um dreifingu sjúkdóma. Deila má um það hvort nú sé rétti tíminn til að horfa á slíkar bíómyndir en hér eru dæmi um nokkrar slíkar.

 World War Z (2013) 

World War Z er Zombie-tryllir með Brad Pitt í aðalhlutverki sem sérfræðingur á vegum Sameinuðu þjóðanna sem er sendur út til að finna uppruna og lækningu við uppvakningafaraldri.

Contagion (2011) 

Kvikmyndin Contagion virðist vera komin aftur á áhorfslista margra upp á síðkastið. Kvikmyndin fjallar um banvæna og bráðsmitandi veiru sem fer eins og eldur í sinu um heiminn með þeim afleiðingum að fjölmargir láta lífið. Neyðarástand skellur á í heiminum og lækna- og vísindasamfélagið stendur frammi fyrir því erfiða verkefni að berjast gegn veirunni og finna lækningu við henni til að bjarga lífum milljóna. Óttinn grípur fólk hvarvetna og veldur því að fólk snýst gegn hvor öðru.

Rise of the Planet of the Apes (2011)

James Franco fer með aðalhlutverkið í kvikmyndinni The Rise of the Planet of the Apes. Franco er í hlutverki vísindamanns sem uppgötvar leið til að auka heilavirkni í öpum í tilraun til að finn lækningu við Alzheimer-sjúkdómnum. Tilraunin fer því miður úrskeiðis og veldur stökkbreytingu á veiru sem veldur sjúkdómi sem dregur milljónir manna til dauða. 

Black Death (2010)

Kvikmyndin Black Death gerist, eins og titillinn gefur til kynna, þegar svartidauði breiddist fyrst út á Englandi. Eddie Redmayne leikur ungan munk sem fær það hlutverk að komast að því hvort fólk sé að vakna upp frá dauðum. 

Carriers (2009)

Stórhættuleg veira dreifir sér um heiminn með ógnarhraða og fjórir ungir vinir gera sitt besta til að halda lífi og forðast smit. Flestir jarðarbúar eru þegar smitaðir eða hafa látið lífið vegna veirunnar. Ástandið og óttinn sem því fylgir kallar þó fram það versta í fólki í þessum breytta heimi.

Blindness (2008)

Sérkennilegur faraldur breiðist út og blindar þá sem smitast og lamar samfélagið sem reynir að bregðast við. Frábærir leikarar fara með hlutverk í myndinni en meðal þeirra má nefna Julianne Moore, Mark Ruffalo og Danny Glover.

28 Days Later (2002) og 28 Weeks Later (2007) 

Zombie-tryllirinn 28 Days Later eftir Danny Boyle og framhaldsmyndin 28 Weeks Later eftir Juan Carlos Fresnadillo fjalla um heim þar sem veirufaraldur sem breytir fólki í skrímsli ógnar heiminum.

Cabin Fever (2002) 

 Fimm ungir skólafélagar taka sér frí í skógarkofa og hitta þar fyrir tilviljun mann með hræðilegan sjúkdóm. Þegar eitt þeirra smitast af manninum er voðinn vís. 

12 Monkeys (1995) 

Banvæn og bráðsmitandi veira dregur milljarða manna til dauða árið 1996 og veldur því að aðeins 1% af mannkyninu er á lífi árið 2035. Þegar tækifæri býðst til að fara aftur í tímann til að reyna að stöðva stökkbreytingu veirunnar býður glæpamaðurinn Cole (Bruce Willis) sig fram. Planið gengur þó ekki alveg upp og hann er sendur aftur til ársins 1990, sex árum fyrr en áætlað var.

Outbreak (1995) 

Spennumyndin Outbreak fjallar um skæða veirusýkingu sem berst til Bandaríkjanna. Vísindamenn reyna sitt besta til að koma í veg fyrir dreifingu veirunnar og finna lækningu á meðan blóðþyrstur herforingi leitast við að fá að nota veiruna sem efnavopn. 

I am Legend (2007)

Eftir að ólæknandi veira dreifist um allan heim og dregur íbúum New York borgar úr um 19 milljónum í einn mann, vísindamanninn Robert Neville (Will Smith). Breytast fórnarlömbin í hræðilegar ofbeldisfullar verur sem Neville þarf að flýja. Hann býr einn með hundinum sínum í borginni í þrjú ár en á þeim tíma gefur hann ekki upp vonina á því að finna einhvern annan sem lifði veirufaraldurinn af og notar vitneskju sína sem vísindamaður til að reyna að finna lækningu fyrir þá sýktu. Kvikmyndin er byggð á skáldsögu eftir Richard Matheson en áður hafa verið gerðar myndirnar The Last Man on Earth (1964) og The Omega Man (1971) eftir sömu bók sem einnig eru góð skemmtun.

The Seventh Seal (1957) 

The Seventh Seal eftir sænska leikstjórann Ingmar Bergman fjallar um útbreiðslu svarta dauða í heiminum. Fylgir myndin eftir riddara sem þarf að bókstaflega að tefla við dauðann á meðan faraldurinn geisar.

mbl.is

#taktubetrimyndir