Skortur á sjónvarpsefni líklegur í haust

Lilja Ósk Snorradóttir framkvæmdastjóri Pegasus.
Lilja Ósk Snorradóttir framkvæmdastjóri Pegasus. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Ósk Snorradóttir, framkvæmdarstjóri framleiðslufyrirtækisins Pegasus og meðstjórnandi í sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, sagði ástandið í kvikmyndaiðnaðinum vera alvarlegt en flestum þeim verkefnum sem áætluð voru á næstunni hefur verið frestað vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Lilja tjáði sig um ástandið í kvikmyndaiðnaðinum í samtali við Síðdegisþáttinn á K100 í gær.

„Við erum ekki að verða uppiskroppa með íslenskt sjónvarpsefni en staðan er svipuð og annars staðar í heiminum í dag,“ sagði Lilja.

Keðjuverkandi að fresta kvikmyndaverkefnum

„Þetta er ofsalega keðjuverkandi. Þú gerir endalaust af plönum og það þarf allt að ganga upp. Bæði þurfa leikarar að vera lausir og tökufólk, hótel og tökustaðir og allt þetta þannig að það að segja að við frestum um þrjár vikur er ekkert endilega hægt. Þú sem leikari ert búinn að binda þig í einhver önnur verkefni sem eiga akkúrat að byrja þegar hitt verkefnið átti að klárast,“ sagði hún.

Sagði hún að öllum þjónustuverkefnum við erlend kvikmyndafyrirtæki sem hefðu ætlað að koma til landsins í tökur hefði vitanlega einnig verið frestað og sumarið í þeim efnum væri einnig afar óljóst enda erfitt að gera plön þegar ekki væri vitað hve lengi ástandið myndi vara.

 „Við getum ekkert bókað eða planað því við getum ekki staðfest neitt. Það veit enginn hvar og hvenær maður getur byrjað,“ sagði Lilja.

„Þetta er það sama alls staðar. Þetta er bæði með kvikmyndir sem eru að fara í tökur, sem eru í tökum eða kvikmyndir sem á að frumsýna. Það er enginn að fara að frumsýna neins staðar núna því það er enginn að fara að mæta á sýningar í þeim bíóhúsum sem eru opin, eða afskaplega fáir. Þannig að það myndi vera rosalegt tap fyrir þær myndir að fara út,“ útskýrir Lilja.

Hún staðfesti að mögulega gæti myndast gat í sjónvarpsefni á heimsvísu næsta haust vegna allra þeirra verkefna sem hefðu frestast vegna faraldurins. 

Vonar að ekki verði sprenging í veirukvikmyndum

„Það er það sem gerist. Maður finnur hjá sjálfstæðu stúdíóunum sem eru með kvikmyndirnar að það mun myndast gat hjá þeim en það verður enn skrýtnara fyrir sjónvarpsstöðvarnar því þar ertu með seríur sem alltaf eru frumsýndar á haustin. Sá taktur dettur út og þar myndast gat líka. Þannig að þetta er svona á báðum stöðum,“ sagði Lilja. 

Spurð út í það hvort fólk mætti búast við að vera afþreyingarlaust í haust sagði Lilja kímin í bragði: „Þá verðum við bara að tala saman og spila.“ 

Sagðist hún vonast til þess að kvikmyndaframleiðendur gætu nýtt tímann í að þróa nýtt efni á þessum tíma en bætti við að hún vonaðist þó til þess að ekki færu allir að þróa einhvers konar veirukvikmyndir.

Hlustaðu á viðtalið við Lilju í spilaranum hér að neðan.

mbl.is