Eins og 4 ára krakki hafi tekið yfir miðtaugakerfið

„Mér líður eins og það hafi snaróður fjögurra ára krakki …
„Mér líður eins og það hafi snaróður fjögurra ára krakki tekið yfir miðtaugakerfið hjá mér,“ segir Margrét Gauja Magnúsdóttir sem greind er með sjúkdóminn COVID-19. Segir hún að einkennin séu afar ólík því sem hún á að venjast þegar hún er með venjulega flensu enda viti hún þá við hverju sé að búast. Ómar Óskarsson

Margrét Gauja Magnúsdóttir sem greind er með sjúkdóminn COVID-19 og er nú á áttunda degi veikindanna segir að fyrstu einkennin sem hún hafi fundið fyrir hafi verið miklir magaverkir. Lýsti hún því í viðtali við Síðdegisþáttinn í gær að hún hefði vaknað einn morguninn með það útblásinn kvið að sér hefði liðið eins og hún „væri komin níu mánuði á leið“.

Sagði Margrét þó að hún hefði ekki fengið úr því skorið hvort magaverkirnir væru vegna sjúkdómsins en hún hefði fengið þær upplýsingar að einkennin væru tengd honum og að þau lýstu sér á þennan hátt hjá henni.

„Það er svo týpískt að ég geti aldrei fengið það sama og venjulega fólkið,“ sagði hún kímin í bragði.

Spurð hvernig henni liði sagði hún einkennin afar breytileg og mismunandi eftir dögum. 

Veit ekkert hvað er að fara að gerast næst

„Mér líður eins og það hafi snaróður fjögurra ára krakki tekið yfir miðtaugakerfið hjá mér,“ útskýrði Margrét og bætti við: „Það er ekkert línulegt kerfi á þessu.“ Sagði hún að einkennin væru afar ólík því sem hún ætti að venjast þegar hún væri með venjulega flensu enda vissi hún við hverju væri að búast í slíkum aðstæðum.

„En þetta er bara eitthvað. Ég er til dæmis að koma núna úr vöðvaverkjakasti,“ sagði hún. „Ég er með hita, ég er með hósta og svo bara svona eitthvað. Þetta byrjar á magaverk og svo er það farið niður.“ Bætti hún við að einkennin kæmu og færu í sifellu. 

„Þetta er alveg glatað. Ég veit ekkert hvað er að fara að gerast næst,“ sagði hún.

 Hlustaðu á viðtalið við Margréti í Síðdegisþættinum á K100.

mbl.is