Rúrik púslar og æfir stíft í samkomubanni

„Ég er nú eiginlega að æfa mest sjálfur. Æfa og …
„Ég er nú eiginlega að æfa mest sjálfur. Æfa og púsla, það er nú eiginlega það sem ég geri,“ sagði Rúrík Gíslason knattspyrnumaður og leikmaður SV Sandhausen í Þýskalandi, í samtali við Síðdegisþáttinn í gær Instagram/rurikgislason

Knattspyrnumaðurinn Rúrik Gíslason situr ekki auðum höndum í Þýskalandi þar sem hann er búsettur þrátt fyrir strangt samkomubann en hann spilar fyrir þýska knattspyrnuliðið SV Sandhausen. Í samtali við Síðdegisþáttinn á K100 í gær sagðist Rúrik vera með þétt æfingaprógramm frá þjálfurum liðsins en sagðist þess á milli púsla og horfa á Netflix. 

Barst talið að nýrri mynd Rúriks á Instagram, þar sem íslenska knattspyrnuhetjan er með 875 þúsund fylgjendur, en á myndinni, sem hefur fengið yfir 112 þúsund „læk“, er Rúrik einmitt að púsla. 

View this post on Instagram

Staying home! Hope you’re all safe and in good spirits 🙏💪🏼 #stayhome

A post shared by Rurik Gislason (@rurikgislason) on Mar 24, 2020 at 11:42am PDT

Spurður út í það hvort honum leiddist ekki í ástandinu sagðist Rúrik ekki láta það mikið á sig fá.

„Hérna er það þannig að það mega ekki vera fleiri en tveir saman. Ég held að það séu margir í miklu verri málum. Ég er náttúrulega með Netflix og alls konar afþreyingu. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta,“ sagði hann. „Það er ekki útgöngubann en það er ætlast til þess að fólk sé bara heima. Það virðist vera mikil samheldni með það. Fólk er ekkert á vappinu. Fólk fer út í búð og út í apótek og það er „basically“ það eina sem fólk gerir.“

Sagði Rúrik að vel væri fylgst með því að hann og liðsfélagar hans væru að halda sér í formi og fylgja æfingaplaninu, þrátt fyrir að hver og einn þyrfti að æfa einn síns liðs. Hver og einn liðsmaður er að sögn með púlsmæli sem tengist við snjallsímaforrit sem sendir upplýsingar um æfinguna til þjálfara. 

„Þannig fylgjast þeir með því að við séum að gera allt á þeim tíma sem við eigum að gera. En það þarf alvöruaga í þetta get ég sagt þér. Að vakna á morgnana og finnast eins og þú sért í fríi og þurfa samt að fara að djöflast meira og minna lungann af deginum. Ég finn líka rosalega mikinn mun að ef ég stoppa í nokkra daga er ég heillengi í gang aftur þannig að maður þarf, á þeim aldri sem maður er komin á, í alvöru að halda sér við,“ sagði knattspyrnumaðurinn sem er nýorðinn 31 árs.

Spilar ekki FIFA

Aðspurður sagðist Rúrik ekki hafa mikinn áhuga á því að spila knattspyrnu-tölvuleikinn FIFA í frítíma sínum líkt og margir knattspyrnumenn. 

„Ég reyndi það. Ég er náttúrulega búin að vera 15-16 ár erlendis í atvinnumennsku og á tímabili keypti ég mér leikjatölvu og reyndi að finnast þetta geggjað gaman. Samt eru sumir liðsfélagarnir eldri en ég, þrjátíu og eitthvað ára. Þeir alveg hreint festast í þessu klukkutímum saman. Þetta höfðar ekki til mín en ég dæmi engan,“ sagði Rúrik. 

Hlustaðu á viðtalið við Rúrik í Síðdegisþættinum á K100 í spilaranum hér að neðan.

mbl.is