Kveikjum á húmorkastaranum

„Fólki finnst stundum pínulítið gert lítið úr ástandinu með því …
„Fólki finnst stundum pínulítið gert lítið úr ástandinu með því að halda gleðinni og húmornum á lofti en fyrirsögnin er auðvitað að við verðum að gráta líka. Við verðum að eiga einhvern að sem við getum trúað fyrir ótta okkar og kvíða, af því að þá er allt miklu léttbærarara,“ sagði Edda Björgvins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gamanleikkonan Edda Björgvins sló í gegn á opnum fyrirlestri sínum Húmor á óvissutímum sem streymt var í beinni útsendingu á þriðjudaginn var í gegnum Endurmenntun Háskóla Íslands.

Edda ræddi við Loga Bergmann og Sigga Gunnars í Síðdegisþættinum fyrir fyrirlesturinn um mikilvægi þess að halda í húmorinn á tímum sem þessum þegar heimurinn stendur frammi fyrir heimsfaraldri.

„Fólki finnst stundum pínulítið gert lítið úr ástandinu með því að halda gleðinni og húmornum á lofti en fyrirsögnin er auðvitað að við verðum að gráta líka. Við verðum að eiga einhvern að sem við getum trúað fyrir ótta okkar og kvíða, af því að þá er allt miklu léttbærarara,“ sagði Edda.

Næsta skref að skima eftir ljósinu

„Næsta skref er svo að skima eftir ljósinu þegar maður er búinn að gefa sér tíma til að þjást eins og maður þarf að gera. En maður getur ekki dvalið þar vegna þess að þá er maður bara veikur. Það er kjarninn í þessu með húmorinn.“

Sagðist hún vilja hvetja fólk til að nota húmorinn í hversdagslífinu og fá það til að reyna að koma auga á það spaugilega og skondna í ómerkilegustu hlutum en einnig í þeim hryllilegu.

Pínum okkur ekki til að vera hress

„Við getum ekki pínt okkur í að vera alveg óstjórnlega hress og kát og glöð af því að við erum svo ofsalega jákvæð, með öllum stórum stöfum. En að kveikja á húmorkastaranum og sjá hið spaugilega, þótt það sé ekki nema í 5 mínútur. Að fara inn á netið og finna eitthvað sem maður getur hlegið að. Þá er svo mikið flæði af vellíðunarhormónum; endorfíni, dópamíni, oxytósíni og seratóníni sem styrkja ónæmiskerfið verulega.“ 

mbl.is

#taktubetrimyndir