Hámarkinu náð á Ítalíu en enn langt í land

Hjónin Svavar Halldórsson og Þóra Arnórsdóttir, sem eru búsett á …
Hjónin Svavar Halldórsson og Þóra Arnórsdóttir, sem eru búsett á Ítalíu, hafa þurft að vera í sóttkví ásamt börnum sínum í nokkrar vikur vegna útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi. mbl.is/Styrmir Kári

Svavar Halldórsson, sem búsettur er á Ítalíu ásamt eiginkonu sinni Þóru Arnórsdóttur og börnum, segir flest benda til þess að hámarkinu hafi verið náð í útbreiðslu kórónuveirunnar á Ítalíu. SSagðist hann þó telja að enn væri töluverður tími í að landið færi að „rúlla af stað“ aftur með hefðbundnum hætti. Hann ræddi um þetta við morgunþáttinn Ísland vaknar í gærmorgun.

Margir klukkutímar í að borga stöðumælasekt

„Eins og staðan er núna er allt lokað nema apótek, matvöruverslanir og pósthús. Ég gerði tilraun til að fara á pósthús í gær af því að þeir gefa ennþá stöðumælasektir. Mér tókst í síðustu viku að ná mér í eina slíka. Ég beið í klukkutíma í mjög langri röð sem færðist ekki. Ég ætla að fara aftur í dag og standa í nokkra klukkustunda röð til að borga sektina mína,“ sagði Svavar.

Sagði hann að þar sem margt benti til þess að faraldurinn væri aðeins seinna á ferðinni í öðrum löndum myndi taka töluverðan tíma fyrir fólk að fara að ferðast aftur en líkt og á Íslandi er ferðaþjónusta ein mikilvægasta atvinnugrein Ítalíu.

Aðspurður sagði Svavar að skiptar skoðanir væru um það hversu löng biðin yrði eftir því að hlutir kæmust í nokkuð eðlilegt horf í landinu.

„Þeir bjartsýnustu að vona að þetta fari í gang í sumar en svo eru aðrir sem segja að þetta muni taka einhver misseri og benda á það til dæmis ef að flugfélög og ferðaþjónustufyrirtæki fara á hausinn í stríðum straumnum þá tekur töluverðan tíma að vinna það upp aftur,“ sagði hann. „Menn hérna, alveg eins og heima, eru að standa vörð um grunnstoðirnar heilbrigðisþjónustuna og matvælaframleiðsluna,“ bætti hann við.

Sagði hann alla í fjölskylduna vera heilbrigða og í góðu yfirlæti heima en hjónin hafa verið með börnin í heimakennslu í þær fimm vikur sem þau hafa verið frá skóla.

Pabbabrandararnir ekki jafn fyndnir og áður

„Það eru teknir 4 tímar á dag. Við erum búin að kenna þeim að spila kana og við bara njótum þess. Dönsum svolítið og svona,“ sagði Svavar og sagðist ekki geta hugsað sér betra fólk til að vera læstur inni með.

„En stöku sinnum fara sérstaklega eldri krakkarnir inn í herbergi og eru þar í dágóða stund. Ég er ekki frá því að þeim hafi þótt brandarar pabba síns fyndnari fyrir fimm vikum heldur en núna,“ sagði hann.

Hlustaðu á viðtalið við Svavar í Ísland vaknar í spilaranum hér að neðan.

mbl.is