Er komið að endalokum handabandsins?

Handabandið er rótgróin alþjóðleg hefð en þéttingsfast og nokkurra sekúndu …
Handabandið er rótgróin alþjóðleg hefð en þéttingsfast og nokkurra sekúndu langt handaband Donald Trump Bandaríkjaforseta og Emmanuel Macron forseta Frakklands vakti víða athygli á fundi þjóðarleiðtoganna fyrir þremur árum. AFP

Handabandið, það að taka í höndina á einhverjum til að heilsa, þakka fyrir sig eða óska einhverjum til hamingju, er alþjóðleg hefð sem þekkist í flestum löndum og hefur tíðkast í þúsundir ára. Er hefðin svo rótgróin okkar menningu að flestir hafa lítið hugað að uppruna hennar eða tilgangi. Það er ekki fyrr en núna, á tímum heimsfaraldurs Covid-19 sem margir eru farnir að hugsa sig tvisvar um áður þeir taka í höndina á næsta manni, enda ein mesta smithætta kórónuveirunnar í gegnum handsnertingar.

Hafa nýjar hefðir litið dagsins ljós í kjölfar útbreiðslu veirunnar og eru margir farnir að heilsast til dæmis með því að sparka saman fótum eða slá saman olnbogum. 

Vandræðaleg augnablik hafa orðið milli stjórnmálamanna sem vanir eru að takast í hendur en Angela Merkel, kanslara Þýskalands, var til að mynda neitað um það að fá að taka í höndina á innanríkisráðherra landsins, Horst Seehofer, í byrjun mánaðarins.

En hver er uppruni þessarar rótgrónu hefðar að heilsast með höndunum? 

Samkæmt upplýsingum Vísindavefsins hefur handaband með hægri hendi að minnsta kosti verið þekkt frá 5. öld f. Kr. Þá má sjá forngrísku gyðjurnar Heru og Aðþenu heilsast með áðurnefndri hendi á höggmynd frá þeim tíma. 

Þá telja margir sagnfræðingar að ástæðan fyrir handabandi með hægri hendi eigi sér rætur að rekja í því að rétthentir menn hafi oft borið vopn í hægri hendi. Með því að heilsast með hægri hendi hafi þessir menn því getað sýnt að þeir kæmu í friði með því að færa vopnið yfir í þá hönd sem þeir notuðu ekki til vopnbeitingar. 

Samkvæmt heimildum sagnfræðiveftímaritsins History er ein kenningin sú hreyfingin sem fylgir oft handabandinu, það að sveifla höndunum upp og niður, megi rekja til þess að hún hafi átt að koma í veg fyrir að einstaklingar næðu að fela vopn uppi í ermum sínum.  

Handabandið hefur svo að öllum líkindum þróast yfir í merki um traust og vinskap með tímanum.

Erfitt er að segja hvort áhrif kórónuveirunnar á þessa rótgrónu hefð muni vera varanleg en augljóst er að áhrifanna er farið að gæta víða. Fréttamiðillinn The Guardian tók saman fjölda skemmtilegra myndskeiða þar sem áhrif útbreiðslu kórónuveirunnar á handabandið eru greinileg.

mbl.is

#taktubetrimyndir