Þjóðverjar setja skýrar reglur og fara eftir þeim

Hörður Ágústsson, eigandi Macland, unir sér vel í Berlín þar …
Hörður Ágústsson, eigandi Macland, unir sér vel í Berlín þar sem hart er tekið á útbreiðslu kórónuveirunnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hörður Ágústsson, eigandi verslunarinnar Macland, fluttist til Berlínar síðasta sumar ásamt konu sinni sem stundar þar mastersnám en hann ræddi við Loga Bermann og Sigga Gunnars um ástandið í Berlín á tímum heimsfaraldurs í Síðdegisþættinum í vikunni. Sagði hann fjölskylduna ekki vera á leiðinni heim á næstunni enda væri alvarlega tekið á faraldri kórónuveirunnar í Þýskalandi, öryggi þeirra væri tryggt og nægur matur til í matvöruverslunum.

„Við höfum haft það frekar fínt hérna en stemningin er svolítið skrýtin hérna. Það er rólegra en það á að vera,“ sagði hann.

„Þjóðverjar eru ótrúlega sérstök þjóð. Íslendingar eru líka sérstakir og við erum öll sérstök en hér er farið eftir reglum. Það er þannig. Það eru mjög skýrar reglur settar hér. Angela Merkel heldur einhverja kynningu og daginn eftir er bara hlýtt,“ sagði Hörður og bætti við að hann vildi einnig hrósa yfirvöldum fyrir aðgerðir Íslendinga til að sporna gegn veirunni. 

Ferð ekki og kaupir þér buxur

Sagði hann að allar verslanir væri nú lokaðar í Þýskalandi, nema þær sem skilgreindar væru sem nauðsynlegar, svo sem póstur, matvöruverslanir og lyfjaverslanir.

„Þú ferð ekkert og kaupir þér buxur. Það er ekki hægt,“ sagði hann.

„Annars ligg ég undir skemmdum hérna. Konan mín er vegan og ég er að reyna að vera vegan. Ég flý stundum út á kebabstöðina og fæ mér einn kebab,“ bætti Hörður við kíminn í bragði. 

Hlustaðu á allt viðtalið við Hörð í spilaranum hér að neðan.
mbl.is