Skrýtið að heyra í engisprettum eftir flutning

Eyþór Ingi mun halda tónleika fyrir landsmenn í beinni útsendingu …
Eyþór Ingi mun halda tónleika fyrir landsmenn í beinni útsendingu á Facebook á fimmtudagskvöld í tilefni af samkomubanninu sem nú er í gildi. Ljósmynd/Sander Hesterman

Eyþór Ingi mun halda tónleika í beinni útsendingu á Facebook annað kvöld, beint úr heimastúdíóinu. Í samtali við morgunþáttinn Ísland vaknar segist Eyþór fyrst hafa prófað að senda tónleika út í benni útsendingu í einhverri rælni. 

„Kommentin“ mikilvæg

„Það sem er skemmtilegt er að maður getur séð „kommentin“ og svona. Það skiptir mig miklu máli af því að þá líður mér eins og ég sé að spila fyrir einhvern. En ég viðurkenni að það er stundum rosalega skrýtið, sérstaklega ef maður dettur í mikinn fíling, er að spila eitthvað lag og klárar það með dúndrandi tón og svo þegar maður er búinn heyrir maður bara í einhverjum engisprettum,“ sagði Eyþór kíminn.  „Svo horfir maður bara á skjáinn skítstressaður,“ bætti hann við. 

Segist hann vera í sjálfskipaðri sóttkví á heimili sínu eins og svo margir aðrir en kveðst telja það vera mikilvægt að halda áfram að „dressa sig upp“ af og til. 

„Við vorum með lambalæri hér á mánudagskvöld. Þá klæddum við okkur bara upp eins og við værum að fara út að borða,“ sagði Eyþór. 

Aðspurður segir hann tekjutapið vegna faraldurs kórónuveirunnar vera gríðarlegt enda hafi faraldurinn komið upp á „árshátíðarmánuðunum“. 

Telur sig geta staðið af sér veiruna

„Auðvitað er þetta mikið tekjutap og hræðilegt og allt það en ég hugsa alltaf að það eru örugglega einhverjir aðrir í meira veseni. Ég er búin að vera duglegur og á inni fyrir smá fríi. Það eru einhverjir aðrir sem horfa upp á fyrirtækið sitt í steik. Ég held að fyrritækið mitt, sem er náttúrulega bara Eyþór Ingi, standi af sér veiruna. Þó að ég þurfi að lifa á hrísgrjónum í nokkra daga,“ sagði Eyþór. 

Tónleikarnir verða sendir út frá heimastúdíói Eyþórs Inga beint á Facebook-síðu hans 26. mars klukkan 21:00. 

Hlustaðu á viðtalið við Eyþór Inga í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is