Salka Sól gefur brjóst og prjónar í samkomubanni

Salka Sól Eyfeld eyðir mestum tíma sínum í fæðingarorlofinu í …
Salka Sól Eyfeld eyðir mestum tíma sínum í fæðingarorlofinu í að gefa brjóst og prjóna. mbl.is/Styrmir Kári

Tónlistarkonan Salka Sól Eyfeld hefur ekki setið auðum höndum í fæðingarorlofi og samkomubanni en hún steig meðal annars á svið síðustu helgi í beinni útsendingu með Helga Björns á fyrsta laugardagskvöldi Íslendinga í samkomubanni á tónleikum „heima í stofu“.

Sagði hún í viðtali við Logi Bergmann og Siggi Gunnars í Síðdegisþættinum á K100 á dögunum að hún hefði haft mun meira á prjónunum í fæðingarorlofinu fyrir samkomubannið en hún hefur, líkt og fleiri skemmtikraftar, þurft að hætta við mörg „gigg“ vegna þess. Að sögn eyðir hún mestum tíma sínum í að gefa brjóst og prjóna þessa dagana en dóttir hennar Una fæddist 29. desember síðastliðinn.

Lítur á björtu hliðarnarnar á samkomubanninu

„Kannski var þetta bara það sem ég þurfti. Nú slakar þú bara á heima hjá þér með nýfædda barninu þínu. Ég held að margir séu svolítið þarna: „Þá er maður bara heima og ég ætla að klára að laga til í bílskúrnum.“ Fólk er bara að finna ró í þessu ástandi ef það getur komið sér á þann stað,“ sagði Salka Sól. 

Sagðist hún kjósa að líta á björtu hliðarnar á samkomubanninu sem væri þess valdandi að hún fengi fleiri heimsóknir í fæðingarorlofinu.

„Mér finnst það bara frábært því að allir vinir mínir eru orðnir atvinnulausir. Þannig að ég er ekkert ein í þessu fæðingarorlofi. Ég er allt í einu með fullt af fólki í kringum mig. Það eru allir til í að fara út með vagninn og hitta mig,“ sagði hún.

Konur verða stundum pínu einmana í fæðingarorlofi. Það eru allir að vinna á daginn og svo er maður bara þreyttur á kvöldin. Maður verður náttúrulega að reyna að sjá jákvæðu hliðarnar á öllu.“

Hannar ungbarnalínu

„Ég kenndi sjálfri mér að prjóna á meðgöngunni,“ sagði Salka Sól og bætti við kímin í bragði: „Af því ég var svo „lónlí“. 

„Svo komst ég að því að ég er bara ógeðslega flink í því og núna er ég að gera ungbarnalínu, í samstarfi við stroff.is, sem heitir eftir dóttur minni, Una. Hún er bara að droppa inn á næstu dögum.“

Sagðist Salka Sól vera orðinn mikill „prjónapeppari“ í fæðingarorlofinu og bauðst til að mæta aftur í útvarpsþáttinn til að kenna landsmönnum að prjóna í samkomubanninu.

„Þetta er svo yndislegt. Að vera að hlusta á hljóðbók eða K100 eða að vera bara með eitthvað í gangi. Sitja bara og prjóna. Þú nærð „bilaðslegri“ hugarró og hugleiðslu,“ sagði listamaðurinn.

Fyrsta húfan eins og „gyðingakolla á köttinn“

Sagðist Salka þó ekki hafa náð handtökunum strax þegar hún byrjaði að prjóna en fyrsta húfan sem hún prjónaði var að sögn „eins og gyðingakolla á köttinn“. Youtube var henni þó til halds og trausts í fyrstu.

„Ég sé svo margt jákvætt við þetta. Bæði er neysluhyggjan svo gífurleg oft í kringum börn og barnaföt. Svo eyðir maður svo miklum tíma í þetta að manni þykir svo vænt um flíkurnar og maður hugsar svo vel um þær. Maður á þær fyrir næsta barn eða gefur einhverjum þær. Prjón er svo falleg gjöf af því að það er svo mikil vinna á bakvið hverja barnaflík. Þú ert kannski búin að prjóna tíuþúsund lykkjur í peysu fyrir barn vinkonu þinnar. Þannig að það er svo margt fallegt í þessu,“ sagði hún.

Hlustaðu á viðtalið við Sölku Sól í Síðdegiþættinum í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist