Skautaði í átta klukkutíma í tökum

Skautadrottningin Dídí er aðalstjarnan í nýrri alþjóðlegri auglýsingu fyrir Ísey …
Skautadrottningin Dídí er aðalstjarnan í nýrri alþjóðlegri auglýsingu fyrir Ísey skyr en í tökum fyrir auglýsinguna þurfti hún að skauta í um 8 klukkustundir. Ljósmynd/Ísey Skyr

Skautadrottningin Þuríður Björg Björgvinsdóttir, eða Dídí eins og hún er jafnan kölluð, er aðalstjarnan í nýrri auglýsingu frá Íseyjar-skyri. Auglýsingin verður sýnd víða um heim, meðal annars í Bretlandi og Rússlandi.

Dídí, sem hefur skautað frá því hún var nýorðin sjö ára, lék listir sínar í tæpa átta klukkutíma á Bretavatni í Mýrum í lok janúar.

Var að kafna úr hita

„Það var hálftímapása í hádeginu og síðan var bara skautað í marga klukkutíma. Ég var ekki komin heim fyrr en um hálfátta um kvöldið þannig að þetta var alveg massíft,“ segir Dídí í samtali við K100.is.

Dídí hefur skautað frá 7 ára aldri og nýtur þess …
Dídí hefur skautað frá 7 ára aldri og nýtur þess enn í botn. Ljósmynd/Ísey Skyr

Aðspurð segir Dídí að sér hafi ekki verið mjög kalt í tökunum þrátt fyrir frost enda hafi hún verið vel klædd, í föðurlandi og ullarfötum, og á fullri ferð nánast allan tímann. 

„Þegar ég byrjaði að skauta var mér orðið mjög heitt,“ segir hún. „Ég var alveg að kafna á tímabili, mér var svo heitt. Síðan varð mér smá kalt þegar ég stoppaði.

Þetta var ótrúlega skemmtilegt,“ bætir hún við.

Auglýsinguna sjálfa má finna á YouTube en hægt er að skyggnast bak við tjöldin í tökum á auglýsingunni í spilaranum hér að neðan.

 Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist