Ótrúlegt hve lítið hefur verið greint

Yfirvöld í Dubai voru fljót að bregðast við faraldri kórónuveirunnar …
Yfirvöld í Dubai voru fljót að bregðast við faraldri kórónuveirunnar að sögn Más sem hefur verið búsettur í landinu í 10 ár. Ljósmynd: Samsett

Már Ormarsson, flugumferðarstjóri í Dúbaí, heyrði í Sigga Gunnars og Loga Bergmann í Síðdegisþættinum á K100 í vikunni og ræddi þar um upplifun sína af því að búa í Dúbaí í heimsfaraldri. Már hefur verið búsettur þar síðastliðin 10 ár og telur sig ekki vera á heimleið á næstunni.

Segir hann að flugumferðarstjóravaktirnar hafi verið nokkru rólegri en hann á að venjast upp á síðkastið enda mun færri vélar að koma til landsins.

„Það hefur minnkað rosalega mikið. Þeir voru mjög fljótir að loka á allt flug frá Kína og byrjuðu að skima á flugvöllum með hitaskönnum. Svo tóku þeir allt flug frá Ítalíu og „testuðu“ fólk sem var að koma þaðan. Þeir voru fljótir að loka skólum, það er komið á þriðju viku,“ sagði Már.

„Samkvæmt opinberum tölum er búið að greina um 150 manns en engin dauðsföll svo vitað sé. Það eru vonandi réttar tölur. Miðað við hvað þeir voru fljótir að grípa inn í. En svo má ekki gleyma því að það eru oft svona ofsalega góðar fréttir hérna,“ sagði hann og neitaði því ekki að möguleiki væri á að fréttum í landinu væri ritstýrt. 

„Maður eiginlega trúir því ekki með svona mikið „rennerí“ af fólki alls staðar að að það sé ekki meira um þetta,“ sagði hann. 

„En það eru allir rosalega meðvitaðir og það er verið að sótthreinsa allt. Í vinnunni eru allir hættir að heilsast með handabandi.“

Hlustaðu á viðtalið við Má Ormarsson í Síðdegisþættinum á K100.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir