Fylgstu með dýrum í beinni í samkomubanninu

Hægt er að fylgjast með fjölda dýra í beinni útsendingu …
Hægt er að fylgjast með fjölda dýra í beinni útsendingu í gegnum Internetið. AFP/ TOSHIFUMI KITAMURA

Nú þegar heimsfaraldur kórónuveirunnar geisar og samkomubann ríkir eyða margir meiri tíma heima en ella. Dýraunnendur þurfa þó ekki að sitja auðum höndum því að fjöldi dýragarða, sædýrasafna og einstaklinga býður netnotendum að fylgjast með lífi ýmissa dýra í beinni útsendingu. Good News Network tók saman tíu slíkar útsendingar á fréttavef sínum.

1. Mjaldrar, otrar og mörgæsir: Sædýrasafnið Georgia Aquarium býður upp á beina útsendingu frá lífi fjölda dýra sem búsett eru á safninu. Meðal annars er hægt að fylgjast með afrískum mörgæsum, mjöldrum, sæotrum og sjávardýrum úr kóralrifjunum.

2. Risapöndur: Fylgstu með krúttlegu risapöndunum Tian Tian og Mei Xiang á Smithsonian National Zoo in Washington í Bandaríkjunum.

3. Marglyttur: Hvað er meira róandi en að fylgjast með marglyttum á sundi? Á Monterey-sædýrasafninu er hægt að fylgjast með marglyttum í beinni útsendingu. Auk þess eru í boði fleiri útsendingar þar sem áhugasamir geta fylgst með fleiri sjávardýrum. 

4. Skallaernir: Skallaörninn er þjóðartákn Bandaríkjanna og því vel við hæfi að áhugasamir geti fylgst með skallaarnar-hjónunum Herra forseta (e. Mr. President) og Forsetafrú (e. First Lady) í hreiðri þeirra í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington.

5. Gíraffar: Houston-dýragarðurinn í Texas býður upp á beina útsendingu á gíröffum sem búsettir eru í garðinum. Það er jafnvel hægt að stjórna sjónarhorni vefmyndavélarinnar frá tölvunni. 

6. Kólibrífuglar: Kaliforníubúi nokkur setti upp vefmyndavél við heimili sitt í tré þar sem kólibrífuglinn Bella hefur hreiðrað um sig árlega frá því árið 2005 og streymir myndefninu í beinni á vefsíðu sinni.

7. Hvolpar: Fylgstu með krúttlegum hvolpum sem eru í þjálfun til að verða þjónustuhundar fyrir fyrrverandi hermenn í Bandaríkjunum. 

8. Villt dýr í Afríku: Vefmyndavélar voru settar upp við vinsælt vatnsból meðal dýra í Tembe í Afríku til að hægt væri að fylgjast með dýrum sem þar koma og minnka líkur á veiðiþjófnaði á svæðinu. Fjöldi dýra nýtir sér vatnsbólið, meðal annars fílar, ljón og vísundar.

9. Eldri hundar: Hundaheimili sem tekur á móti eldri hundum setti upp vefmyndavél þar sem hægt er að fylgjast með lífi elskulegra hunda „á eftirlaunum“.

10. Snjóhlébarðar, mörgæsir, gíraffar, ljón og sebrahestar: Melbourne-dýragarðurinn byrjaði nýlega á átaki vegna útbreiðslu kórónuveirunnar sem gengur út á að bjóða fólki að fylgjast með dýrum í dýragarðinum í beinni útsendingu.

mbl.is