„Fólk er bara vitlaust í þetta, það er ótrúlegt“

Súru og söltu sælgætispúðarnir hafa heldur betur slegið í gegn …
Súru og söltu sælgætispúðarnir hafa heldur betur slegið í gegn hjá íslenskum nammiáhugamönnum en sælgætið hefur ekki verið fáanlegt í rúmt ár. Ljósmynd/Aðsend

„Mig hefði aldrei órað fyrir því hvað þetta er vinsælt. Fólk er bara vitlaust í þetta, það er ótrúlegt,“ segir Arnar Freyr Ársælsson hjá Core heildverslun, en heildverslunin flutti nýlega inn nýtt nammi á íslenskan markað; „Salt skum“ og „Surt skum“. Er um að ræða súra og salta sælgætispúða sem hafa ekki verið fáanlegir hér á landi eftir að framleiðslu á þeim var hætt, mörgu íslensku nammiáhugafólki til mikils ama. Sælgætið var í uppáhaldi hjá mörgum en púðarnir voru jafnan vinsælir á nammibörum landsins. 

Mikið hefur verið rætt um nýja nammið inni á nýju facebookgrúppunni Nammitips! þar sem nammiáhugafólk getur komið saman og rætt um sitt uppáhaldssælgæti. Hafa margir deilt þar nýjasta „trendinu“ sem er að klessa saman bleika súra sælgætispúðanum og þeim salta og búa til eins konar samloku. Þetta staðfestir Arnar.

Segir hann að heildverslunin hafi nýlega byrjað að starfa með fyrirtækinu Candy People sem sé í samstarfi við sama framleiðanda og framleiddi gömlu sælgætispúðana.

Sama innihald en önnur lögun

„Þetta er nákvæmlega sama innihald en það er önnur lögun á namminu því þetta er ný vara. En þetta er í raun sama varan,“ segir Arnar. Segir Arnar að heildsalan hafi haft mikið fyrir því að anna eftirspurn eftir púðunum sem hverfi jafnóðum úr hillum verslana. 

„Það er búið að vera brjálað að gera, þetta bara mokast út,“ segir hann. „Maður sér það til dæmis inni á Nammitips-facebookgrúppunni þar sem allir helstu áhugamenn landsins eru komnir saman. Maður er búinn að sjá miklar umræður og það eru allir að tala um þessa kodda,“ segir hann. 

Nostalgíufílingur á Nammitips!

Arnar bendir á að einnig hafi verið mikil umræða um annað nammi sem heildverslunin flutti inn sem sömuleiðis hefur ekki verið fáanlegt í einhvern tíma og flestir kalla einfaldlega „peace“-merkið. Segir hann að sömu sögu sé að segja af því nammi, sem rjúki úr hillum búða þó að það sé ekki alveg jafn vinsælt og sælgætispúðarnir.  

Arnar segir að sama innihald sé í nýju sælgætispúðunum og …
Arnar segir að sama innihald sé í nýju sælgætispúðunum og þeim gömlu sem áður fengust á nammibörum. Core Heildverslun hefur átt fullt í fangi með að anna eftirspurn eftir púðunum frá því þeir komu á markað um miðjan febrúar. Ljósmynd/Core Heildverslun

Aðspurður segir Arnar að heildverslunin sé með puttann á púlsinum varðandi eftirspurn eftir vörum sem Íslendingar vilja fá aftur á markað.

„Það er svolítill „nostalgíufílingur“ í þessari grúppu. Það eru margir að pósta einhverju gömlu nammi sem þeir sakna. En það er líka kannski í kjölfarið á að þessir koddar komu á markaðinn aftur þar sem þetta var eitthvað sem margir söknuðu. Þá fer fólkið að rifja upp fleiri nammitegundir,“ segir hann.

Core heildverslun hefur einnig flutt inn annað sælgæti sem ekki …
Core heildverslun hefur einnig flutt inn annað sælgæti sem ekki hefur verið fáanlegt lengi hér á landi; friðarmerki með jarðaberja- og lakkrísbragði. Ljósmynd/Core heildverslun
mbl.is