Gerðu þitt eigið spritt með þessu þrennu

Hægt er að búa til sitt eigið handspritt frá grunni …
Hægt er að búa til sitt eigið handspritt frá grunni með einföldum hætti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Handspritt rjúka úr hillum verslana um þessar mundir og víða er varan uppseld eftir að upp komst um smit Covid-19 kórónuveiru hér á landi enda er besta leiðin til að komast hjá smiti að halda höndunum hreinum. 

Fréttamiðillinn Business Insider greinir frá lausn við þessu en miðillinn talaði við sýklafræðing sem lýsti einfaldri aðferð til þess að búa til eigið handspritt frá grunni með þremur algengum innihaldsefnum. 

60% alkóhól, aloe vera og ilmolía

Það eina sem til þarf er vökvi sem er meira en 60% alkóhól, til dæmis ísóprópanól eða sterkt áfengi, gel úr aloe vera-plöntu og ilmolía. 

Sýklafræðingurinn Miryam Wahrman segir í samtali við Business Insider að mikilvægt sé að alkóhólið fari ekki undir 60% í styrkleika þar sem það minnki sótthreinsandi áhrifin til muna. 

Aloe vera-gelið kemur í veg fyrir of mikinn þurrk vegna alkóhólsins og ilmolían bæði mýkir og gefur sprittinu góðan ilm.

Mælt er með 2/3 bollum af alkóhóli á móti 1/3 bolla af aloe vera-geli og tíu dropum af ilmolíu. 

Wahrman bendir á að besta aðferðin til að halda höndunum hreinum og komast hjá kórónuveirusmiti sé þó alltaf að þrífa hendurnar vel með sápu og volgu vatni. Með þeirri aðferð sé fólk að fjarlægja alla sýkla. Handspritt drepi vissulega flesta sýklana en fjarlægi þá ekki.

Fréttin hefur verið uppfærð í kjölfar athugasemdar um að nægilega sterkt vodka (yfir 60%) sé ekki leyfilegt hér á landi en í upprunalegri útgáfu fréttarinnar kom fram að hægt væri að nýta sterkt áfengi eins og vodka til að búa til spritt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

#taktubetrimyndir