Hélt að sjálfróun leiddi til blindu

„Það er svo magnað hvað það er mikið „tabú“ að ræða þetta. Skiljanlega af því að á árunum áður var þetta talin mikil synd og skömm og fólk talið missa hreinlega vitið við það að gera þetta,“ sagði fyrsti verðandi kynlífsmarkþjálfi Íslands, Kristín Þórsdóttir, sem mætti í morgunþátt K100 Ísland vaknar í gærmorgun og ræddi um sjálfsfróun.

„Sem betur fer er umræðan orðin meiri í dag og opnari af því að sjálfsfróun er ótrúlega mikilvægur partur af lífinu. Sérstaklega þegar maður er ungur þannig að maður kynnist líkamanum sínum og viti hvað maður vill og vill ekki. Þetta er ótrúlega góð streitu-, kvíðalosun og verkjastillandi. Þannig að ef maður er með höfuðverk á maður einmitt að stunda sjálfsfróun,“ sagði Kristín. „Þetta slakar á öllum líkamanum. Endorfínið sem losnar við fullnægingu slakar á öllum sársauka og verkjum.“

Huggaði sig við að fleiri væru að fá gleraugu

Barst þá umræðan að gömlum mýtum varðandi sjálfsfróun og Kristín deildi persónulegri reynslu sinni. Sagðist hún hafa verið afar ung þegar hún byrjaði að stunda sjálfsfróun án þess að hafa vitað hvað sjálfsfróun raunverulega var. 

„Það var ekki svona opin umræða og það var ekki til Google. Það var ekki hægt að „gúggla“ bara „Hvað er sjálfsfróun?“,“ sagði hún.

Greindi hún frá því þegar hún og frænkur hennar fundu bunka af klámblöðunum Bleikt & blátt í sumarbústað sem börn. 

„Við vorum agalega spenntar nema það eina sem ég tók eftir í einu blaðinu var ein setning sem var: „Sjálfsfróun leiðir til blindu“. Og ég var nýkomin með gleraugu. Ég hugsaði bara „shit“ ég þarf að hætta, ég enda blind ef ég hætti ekki. Ég fékk kvíðakast og reyndi eins og ég gat að hætta,“ sagði Kristín.

„Eini ljósi punkturinn í lífi mínu var þegar ég sá fleiri nemendur fá gleraugu. Þá hugsaði ég bara ókei, ég er alla vega ekki ein að fróa mér.“

Horfðu á allt viðtalið við Kristínu Þórsdóttur í spilaranum hér að neðan. 

mbl.is

Bloggað um fréttina