Plötusnúðurinn Dóra Júlía tekur við Tónlistanum

Siggi Gunnars bauð Dóru Júlíu velkomna til liðs við útvarpsstöðina …
Siggi Gunnars bauð Dóru Júlíu velkomna til liðs við útvarpsstöðina K100 en hún mun stýrða eina opinbera vinsældarlista landsins, Tónlistanum alla sunnudaga frá 16-18. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dóra Júlía, einn vinsælasti plötusnúður landsins, gengur til liðs við K100 í vikunni. Hún mun stýra eina opinbera vinsældalista landsins, Tónlistanum Topp40, alla sunnudaga frá 16.00 til 18.00.

Tónlistinn Topp40 er unninn af Félagi hljómplötuframleiðenda og tekur hann mið af spilun á helstu útvarpsstöðvum landsins og streymi á Spotify, og er því eini opinberi vinsældalisti landsins og spilunarlisti þjóðarinnar.

„Ég er mjög „peppuð“ fyrir þessu. Mér finnst þetta passa mjög vel við mig og það sem ég er að gera og ég hlakka bara mjög mikið til að keyra þetta í gang,“ segir Dóra Júlía í samtali við K100.is.

Tekur upp þætti frá Balí

Segir hún að mikið sé á döfinni hjá henni á næstunni, en hún er fullbókuð langt fram á sumar og ætlar að flytja til Balí í apríl, þar sem hún mun stunda jógakennaranám.

„Ég tek þættina upp þaðan þannig að ég verð fersk og ótrúlega „zen-uð“ frá Balí að segja ykkur frá tónlistinni,“ segir hún.

Sigurður Þorri Gunnarsson, dagskrár- og tónlistarstjóri K100, segir frábært að fá Dóru Júlíu til liðs við útvarpsstöðina og segir við hæfi að fá einn vinsælasta plötusnúð landsins til að kynna vinsælustu lögin á K100.

„Hún er mikið hæfileikabúnt og öflugur liðsmaður. Það verður gaman að vinna með henni að því að stækka K100 enn frekar, en stöðin hefur verið á mikilli siglingu og fagnaði núna í febrúar hæstu hlustunartölum frá upphafi. Dóra, sem er öflug og á miklu flugi, er því frábær viðbót við stöð sem er á miklu flugi þessa dagana.“

mbl.is