Verslaði í matinn í fyrsta sinn í 40 daga

Pétur og Hulda versluðu ekki í matinn í 40 daga …
Pétur og Hulda versluðu ekki í matinn í 40 daga heldur nýttu það sem til var á heimilinu. Ljósmynd/Aðsend

Pétur Guðjónsson verslaði í matinn í fyrsta skipti í fyrradag eftir 40 daga „verslunarföstu“ en hann og eiginkona hans, Hulda Ingadóttir, nýttu aðeins mat sem til var fyrir á heimilinu í þessa 40 daga. 

„Það var komið að því. Það var svo sem ósköp gott að fá Pepsi Max og kóngabita,“ sagði Pétur í samtali við morgunþáttinn Ísland vaknar á K100 í gærmorgun.

„Þetta byrjaði þannig að við erum úti á Tenerife upp úr áramótum í smá fríi og þar kviknar þessi hugmynd eftir að við erum að fara af hótelinu. Maður er skyldugur til að kaupa kvöldmat með hlaðborði. Mér finnst þessi hlaðborð [...] það er eitthvað sem ég algjörlega þoli ekki. Allt úti um allt af einhverjum matarstöðvum. Hvað höfum við með þetta að gera. Að vera með sex til sjö hundruð fermetra rými þar sem er matur úti um allt,“ sagði Pétur. „Þetta er rugl og fólk hefur enga sjálfsstjórn.“

Nóg til í frystikistunni

Pétur sagðist mæla eindregið með því að taka tímabil til að hreinsa úr frystinum.

„Það er rosalega margt í þessu sem mér finnst við hafa verið að uppskera. Við vorum ekkert að svelta. Við áttum nóg í frystikistunni,“ sagði Pétur.

„Þetta kostar það að þú þarft að elda allt frá grunni og maður nennir því oft ekkert og pantar eitthvað eða hleypur út í búð og þannig safnast maturinn oft upp.“

Hlustaðu á allt viðtalið við Pétur í morgunþættinum Ísland vaknar á K100. 

 

mbl.is