Hrædd við að pissa í sig á sviðinu

Ísold og Helga munu flytja lagið Meet me Halfway í …
Ísold og Helga munu flytja lagið Meet me Halfway í Söngvakeppninni á laugardaginn og freista þess að verða valdar af þjóðinni til að keppa fyrir hönd Íslands í Rotterdam þar sem Eurovision-söngvakeppnin verður haldin í maí. RÚV/Mummi Lu

Ísold og Helga mættu til Sigga Gunnars og Loga Bergmanns í Síðdegisþáttinn á K100 í vikunni og svöruðu þar nokkrum „ógeðslega mikilvægum Eurovision-spurningum“ og greindu meðal annars frá því að það hræðilegasta sem gæti gerst á sviðinu á laugardaginn væri að Ísold myndi pissa á sig. 

Sögðu þær frá nýrri útgáfu af lagi sínu „Meet Me Halfway“ en þær stöllur hafa nú birt hugljúfa, „acoustic“-útgáfu af laginu á Youtube.

„Kristján Pétur Jónsson, bróðir hans Helga, sem er með okkur í bakröddum tók þetta upp fyrir okkur. Þetta er í svarthvítu, kósí útgáfa,“ sagði Ísold í þættinum.  

Útgáfuna má heyra í spilaranum hér að neðan. 

Nokkrar „ógeðslega mikilvægar Eurovision-spurningar“

Hvað er það versta sem gæti gerst á sviðinu? Helga: „Að Ísold pissi í sig.“ Ísold: „Mig dreymdi það fyrir úrslitakvöldið. Enn annar hlutur sem ég þarf að hafa áhyggjur af.“

Nei eða já... Af eða á.

Burtu með fordóma... og annan eins ósóma.

Hver söng þá veistu svarið? Ísold: „Var það Rúna? Eða var það Helga Möller. Eða var það Siggi Gunnars?“

Sigga eða Grétar? Sigga. Girl Power

Stebbi eða Eyfi? Stebbi.

Birgitta Haukdal eða Selma Björns? Selma.

Pálmi Gunnars, Eiríkur Hauksson og... Ísold: „Bjarni Arason? Siggi Gunnars?“ 

Besta lagið sem hefur ekki unnið? Ísold: „Karen, Karen og Frikki Dór.“ Helga: „Já, Síðasta skiptið með Frikka Dór. Það er eiginlega forsetinn í öðrusætisklúbbnum.“  

Uppáhalds íslenska Eurovision-lagið? Helga: „Ég er algjör Power-ballöðukona þannig að Jóhanna Guðrún á alveg stóran stóran sess í mínu hjarta. Það er alveg sjúklega mikið ég. Og líka Selmu Björns-lagið, All Out of Luck.“ Ísold: „Ég er orðinn Hatara-„fan“. Það var svo ógeðslega gaman að fylgjast með þeim einhvern veginn allt í kringum þetta. Allt það sem þeir sögðu. Já, þeir eru uppáhaldið mitt.“ 

En útlenda? Helga: „Þegar Selma var í öðru sæti, Take me to your Heaven.“ Ísold: „Wild Dances. Það virkar alltaf á dansgólfinu. Og Calm after the Storm. Það á góðan sess hjá mér. Við tókum einmitt „cover“ af því.“

Hlustaðu á Ísold og Helgu í Síðdegisþættinum á K100 í spilaranum.

mbl.is