Björgvin Franz lagaði risvandamálið með jóga

Björn Þórir Sigurðsson, Björgvin Franz Gíslason og Freyr Hákonarson voru …
Björn Þórir Sigurðsson, Björgvin Franz Gíslason og Freyr Hákonarson voru gestir á karlafundi í Ísland vaknar þar sem vandamál miðaldra karlmanna voru til umræðu. Ljósmynd/K100

Opinn fundur miðaldra karla var haldinn í morgunþætti Ísland vaknar á dögunum þar sem breytingaskeið karla, grái fiðringurinn og risvandamál voru meðal annars rædd.

Björgvin Franz Gíslason leikari, Björn Þórir Sigurðsson sölustjóri K100 og Freyr Hákonarson markaðsráðgjafi ræddu málin við Ásgeir Pál og Jón Axel. 

Þá sagði Björgvin Franz að hann hefði farið að stunda jóga eftir að hafa farið að finna fyrir risvandamálum.

Eins og áttræð spænsk kona í mottumars

„Ég fann fyrir getuleysi og ég hugsaði bara að ég gæti farið að reyna einhver lyf en þetta er náttúrulega bara vandræðalegt. Maður vill ekki tala um þetta,“ sagði Björgvin Franz í þættinum. 

Sagðist hann upphaflega hafa farið til læknis vegna vandamálsins og sagðist hafa spurt lækninn hvort hann vantaði ekki bara testósterón.

„Ég er augljóslega mjög kvenlegur. Ég fæ til dæmis ekki skegg. Ég fæ 57 svört strá á hökuna og 27 á vörina. Í mottumars er ég alltaf eins og áttræð spænsk kona,“ sagði hann.

Sagðist hann hafa séð fræga menn í Hollywood mæla með jóga sem lausn við risvandamálum sem hafi fengið hann til að fara þá leið sem hafi á endanum virkað fyrir hann. 

Goðsögn að karlmenn séu „alltaf til í þetta“

Freyr sagðist einnig kannast við vandamál af þessu tagi og sagði þau tengjast streitu. Sagði hann að oft gleymdist að karlmenn væru undir jafn mikilli pressu og kvenfólk. 

„Það er ætlast til af okkur að við séum „reddí“ fyrir allt í lífinu. Það er „myth“ að við séum alltaf til í þetta,“ sagði hann. 

Voru karlarnir allir sammála um að opna þyrfti umræðuna um tilfinningar og vandamál karlmanna sem þeir töldu að gleymdust oft í umræðunni. 

Horfðu á karlafundinn í morgunþættinum Ísland vaknar í spilaranum hér að neðan.

mbl.is