Fyrsti samkynhneigði knattspyrnumaðurinn á Hall of Fame

Justin Fashanu var fyrsti opinberlega samkynhneigði atvinnuknattspyrnumaðurinn og fyrsti þeldökki …
Justin Fashanu var fyrsti opinberlega samkynhneigði atvinnuknattspyrnumaðurinn og fyrsti þeldökki knattspyrnumaðurinn sem var seldur fyrir milljón pund. Ljósmynd/Flickr/Grant Stantiall

Justin Fashanu, fyrsti og eini atvinnuknattspyrnumaðurinn til að koma út úr skápnum sem opinberlega samkynhneigður, hefur fengið nafn sitt ritað á hið svokallaða „Hall of Fame“ knattspyrnusafnsins í Manchester í Bretlandi. 

Fashanu féll fyrir eigin hendi árið 1998, átta árum eftir að hann viðurkenndi opinberlega kynhneigð sína, eftir að hafa þurft að þola mikið áreiti í knattspyrnuheiminum.

Hann spilaði meðal annars fyrir Norwich City og Nottingham Forest. Var hann fyrsti þeldökki knattspyrnumaðurinn til að vera seldur fyrir milljón pund.

Amal, frænka Fashanu, tók við verðlaunum í síðustu viku á afmælisdegi hans, 19 febrúar, en hún stofnaði Justin Fashanu-samtökin sem hafa það að markmiði að berjast gegn fordómum sem samkynhneigðir knattspyrnumenn þurfa að þola. 

Enn í dag erfitt fyrir knattspyrnumenn að koma út úr skápnum

Hún segir að enn í dag sé erfitt fyrir knattspyrnumenn að koma út úr skápnum sem opinberlega samkynhneigðir.

„Ég held að hann myndi ekki trúa þessu sjálfur. Ég veit að honum hefði fundist þetta mikill heiður og ég veit að mér og fjölskyldunni þykir þetta mikill heiður,“ sagði Amal í samtali við Sky Sport News.

„Fyrir Justin væri þetta frábær stund og ég held að þetta séu mikil tímamót þegar við erum loksins farin að viðurkenna hver Justin Fashanu var. Ekki aðeins sem opinberlega samkynhneigður knattspyrnumaður heldur einnig sem afar hæfileikaríkur fótboltamaður og sem fyrsti þeldökki knattspyrnumaðurinn sem var seldur fyrir milljón pund.“

„Ég held að í dag, ef knattspyrnumaður kæmi út úr skápnum, myndi það ekki vera nærri því jafn slæmt og þegar Justin kom út úr skápnum, en ég held að það væri samt enn þá mjög erfitt. Það myndi enn vera mikil áskorun. En hvort er erfiðara, að lifa lífi þar sem þú þykist vera einhver annar en þú ert eða bara að vera þú sjálfur?“ sagði Amal.

Stephen Fry var einn þeirra sem fagnaði áfanganum en hann deildi færslu á Twitter þar sem hann skartaði trefli til heiðurs Fashanu í tilefni dagsins.

mbl.is