Reykjavíkurdætur hafa mýkst með árunum

Reykjavíkurdætur eru þekktar fyrir eftirminnilega og ögrandi sviðsframkomu.
Reykjavíkurdætur eru þekktar fyrir eftirminnilega og ögrandi sviðsframkomu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurdætur eru þekktar fyrir ögrandi og kraftmikla framkomu í tónlistinni en þær hafa oft og mörgum sinnum ruggað bátnum í íslenskum tónlistarheimi á síðustu árum. Þær eru hvergi hættar að sögn Þuríðar Blær Jóhannsdóttur, leikkonu og eins liðsmanns stúlknasveitarinnar, en hún segir sveitina þó hafa mýkst heilmikið með árunum.

Hún heimsótti morgunþáttinn Ísland vaknar á K100 á dögunum og spjallaði þar um framtíð hljómsveitarinnar, nýja lagið Fools Gold og komandi plötu sem er væntanleg frá sveitinni í apríl.

Þuríður Blær segir að enn þá sé rebel í Reykjavíkurdætrum …
Þuríður Blær segir að enn þá sé rebel í Reykjavíkurdætrum þó að þær hafi mýkst örlítið með árunum. Ljósmynd/K100

„Ég myndi segja að við værum að mýkjast. Við erum orðnar færri. Þetta var svona lifandi tala á tímabili. Þetta byrjaði sem hópur sem var opinn fyrir hvaða konu sem vildi koma og vera með. Þannig vorum við 20 á tímabili og allar mjög mismunandi mannskjur og með mismunandi pólitískar skoðanir og mismunandi hormónaflæði,“ sagði Þuríður í viðtalinu.

„En núna höfum við verið að þróast í svona alvöruhljómsveit. Við erum níu í dag og það er algjörlega föst tala. Við erum að vinna miklu meira sem hópur og heild,“ sagði hún.

„Það er samt ennþá smá „rebel“ í okkur. Ég segi það ekki,“ bætti hún við. 

Sagði hún að nýja platan yrði ekki neinn samtíningur. 

Horfðu saman á Disney-mynd í náttfötum í sumarbústað

„Algjörlega nýtt efni og algjörlega, frá a til ö, öll platan er samin sem heildarverk. Við erum að semja saman allar. Við fórum upp í sumarbústað og eyddum heilli helgi saman og fórum svo til Berlínar og tókum upp plötuna saman. Við erum búnar að vera að sitja á þessari plötu síðan í maí,“ sagði Þuríður Blær.

Spurð út í það hvort hún gæti gefið hlustendum innsýn í það hvernig helgi með Reykjavíkurdætrum í sumarbústað væri hló Þuríður.

„Ég vildi að ég gæti sagt að þetta væri alveg brjálað dæmi,“ sagði hún og lýsti því að stúlknasveitin hefði horft saman á Disney-mynd í náttfötum í bústaðnum og unnið að plötunni.

„Ég er sú sem vil hafa „rebelinn“ áfram og langar að við séum alltaf „shitfaced“ á tónleikum en við erum orðnar of „professional“,“ sagði Þuríður Blær.

Hægt er að horfa á allt viðtalið við Þuríði Blæ af K100 í spilaranum hér að neðan.

mbl.is