Sala á Ps4 og Xbox One hríðfellur fyrir komu nýrra leikjatölva

Ekki er enn vitað hvernig Playstation 5 mun líta út …
Ekki er enn vitað hvernig Playstation 5 mun líta út en miðað við orðróm gæti það verið einhvern veginn svona. Ljósmynd/LetsGoDigital

Sala á leikjatölvunum Playstation 4 og Xbox One hefur hríðfallið á þessu ári miðað við önnur ár en Sony og Microsoft, framleiðendur leikjatölvanna, hafa báðir tilkynnt að nýjar leikjatölvur séu væntanlegar fyrir jólavertíðina á þessu ári. 

Þó að hægt sé að búast við minnkaðri sölu þegar stutt er í nýja útgáfu endurbættrar tækni er sala á leikjatölvunum mun minni en búist var við.

Samkvæmt heimildum fréttaveitunnar Metro hefur sala á Playstation 4 og Xbox One  í Bandaríkjunum minnkað 35% meira í janúar miðað við sama tíma á síðasta ári.

Þá hefur salan á leikjatölvunum minnkað mun meira en hjá forverum þeirra, Playstation 3 og Xbox 360, 2013 árið sem nýrri kynslóðirnar komu fyrst á markað.

Mikil eftirvænting þrátt fyrir litlar upplýsingar

Ein ástæða fyrir minnkaðri sölu er talin vera sú staðreynd að tölvufyrirtækin Sony og Microsoft, sem framleiða tölvurnar, tilkynntu um útgáfu nýju kynslóðanna óvenjusnemma í fyrra þrátt fyrir að lítið hafi verið gefið upp um tölvurnar. 

Einnig hefur útgáfu nokkurra stórra tölvuleikja, eins og Cyberpunk 2077, verið frestað og líklegt að tölvuleikjaspilarar vilji bíða eftir betri leikjatölvum til að spila þá á.

Sony, framleiðandi Playstation-leikjatölvanna, hefur gefið upp ótrúlega litlar upplýsingar um væntanlega leikjatölvu, Playstation 5, en orðrómur er á kreiki um að blaðamannafundur muni verða haldinn í þessum mánuði þar sem Sony muni loks kynna tölvuna.

Microsoft hefur þegar gefið út stiklu fyrir hina nýju Xbox Series X leikjatölvu sem er væntanleg fyrir jól. Hana má sjá í spilaranum hér að neðan.

mbl.is