Hefur fengið hundrað fyrirspurnir um Tenerife

Guðni Már nýtur lífsins heldur betur í sólinni á Tenerife …
Guðni Már nýtur lífsins heldur betur í sólinni á Tenerife en hann er nú búsettur í höfuðborg eyjunnar, Santa Cruz. Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Útvarpsmaðurinn Guðni Már Henningsson er búsettur í Santa Cruz, höfuðborg Tenerife, þar sem hann málar, hlustar á tónlist og nýtur lífsins í sólinni. 

„Eins og þið vitið hef ég lifað og hrærst í tónlist alla mína hunds- og kattarævi og sum lög og sumir textar og sum heiti á lögum höfða sterkt til mín. Hver einasta málverk sem ég mála heitir eftir einhverju lagi,“ sagði Guðni Már í samtali við Sigga Gunnars og Loga Bergmann í Síðdegisþættinum sem sendur var út í beinni frá Tenerife á dögunum. 

„Þetta er allt saman erlent af því að ég á svo marga íslenska vini að ég þori ekki að fara að mála eftir lögunum þeirra. Þeir gætu orðið vitlausir,“ bætti hann við kíminn. 

Guðni Már er með listasýningu með málverkum sínum á íslenska barnum Nostalgíu á Am­er­ísku strönd­inni á eyjunni. „Ég fer þangað svolítið oft. Það er líka eini staðurinn sem ég þekki hérna sunnan megin á eynni,“ sagði hann. 

Ekki það sama að búa á eyjunni og heimsækja hana

Guðni Már segist hafa fengið um það bil hundrað símtöl og beiðnir um ráðleggingar fyrir fólk sem sé að velta því fyrir sér að feta í fótspor hans og flytja til Tenerife. 

„Það sem ég myndi ráðleggja er að fara inn á leigulistann. Það er alveg hellingur í boði. Og, ef þau mögulega geta, að prófa að koma hingað í tvær, þrjár eða fjórar vikur. Skoða þetta og finna út hvað þeim líkar og eftir hverju þau sækjast. Það er aðalatriðið,“ sagði Guðni. 

Sagði hann mikilvægt að fólk sem stefndi á að flytja til Tenerife gerði sér grein fyrir því að það væri ekki hægt að setja samasemmerki við það að búa á eyjunni og að vera þar í fríi. Það væri „tvennt ólíkt“. 

Hlustaðu á allt viðtalið við Guðna Má í Síðdegisþættinum frá Tenerife í spilaranum hér að neðan.

mbl.is