Meiri agi í skólum á Tenerife

Matthildur hefur búið á Tenerife frá því hún var fjögurra …
Matthildur hefur búið á Tenerife frá því hún var fjögurra ára gömul. Ljósmynd/K100

Matthildur Traustadóttir flutti til Tenerife ásamt foreldrum sínum og systur aðeins fjögurra ára gömul en hún hefur nú búið þar í 12 ár og þekkir lítið annað. Hún spjallaði við Sigga Gunnars og Loga Bergmann í beinni frá Tenerife á K100 á dögunum og sagði þeim frá lífinu og tilverunni sem fylgir því að alast upp á eyjunni sólríku.

Hún er nú að klára 10. bekk í spænskum grunnskóla sem hún segir að sé skemmtilegur þó að kennararnir geti verið strangir.

„Það er hægt að gera alls konar hluti í þessum skóla. Við erum alltaf að taka þátt í alls konar verkefnum,“ sagði Matthildur. Sagði hún þó að meiri agi væri í skólum á Spáni en á Íslandi.

„Þeir eru kannski aðeins strangari kennararnir,“ sagði hún. „Það fer eftir kennurum. Það eru sumir sem eru voðalega ljúfir en svo eru aðrir sem geta ekki heyrt hósta og þá eru þeir bara, „hafið hljóð!““

Matthildur sagði kerfið í grunnskólum á Tenerife einnig vera afar ólíkt því sem þekkist á Íslandi en nemendur geta þurft að taka árið aftur ef þeir falla í tveimur til þremur áföngum. Einnig eru einkunnir nemenda oft lesnar upp fyrir framan allan bekkinn.

„Það er eitt af því sem ég er frekar óánægð með og ég segi kennaranum það oft. Það hefur stundum virkað til þess að þeir hætti að lesa þær [einkunnirnar] upp,“ sagði Matthildur. Hún viðurkenndi þó að þetta kerfi hefði ekki komið illa niður á henni enda gengi henni afar vel í skóla.

Matthildur sagðist eiga nokkra íslenska vini sem hún haldi sambandi við en stefnir á að flytja aftur til Íslands eftir grunnskóla og taka menntaskólann þar til að kynnast fleiri íslenskum krökkum. Hún stefnir á að fara í Kvennaskólann í Reykjavík eftir sumarfrí.

„Mig langaði til að prófa það. Líka upp á að vera aðeins meira með ömmum og öfum. Þrátt fyrir að þau komi hingað á hverju ári í smátíma er alltaf gott að geta farið þegar maður vill,“ sagði hún.

Aðspurð segir Matthildur að vegna uppeldisins búi í henni Spánverji þó að hún hafi ekki enn komist upp á lagið með að taka „síestu“. Íslendingurinn sé þó alltaf innra með henni líka enda líti innfæddir yfirleitt á hana sem „Íslendinginn“.

„Sérstaklega af því að ég er svo hvít. Það eru allir svo brúnir hérna,“ segir Matthildur og hlær.

Hlustaðu á skemmtilegt viðtal við Matthildi í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is

#taktubetrimyndir