Queen endurtók tónlistaratriði frá Live Aid í Ástralíu

Hljómsveitin Queen og Adam Lambert spiluðu þekkt tónlistaratriði frá Live …
Hljómsveitin Queen og Adam Lambert spiluðu þekkt tónlistaratriði frá Live Aid-tónleikunum frá 1985 á styrktartónleikum sem haldnir voru vegna kjarreldanna í Ástralíu á sunnudag. AFP

Hljómsveitin Queen endurtók í fyrsta skiptið frá upphafi hið margrómaða 22 mínútna langa Live Aid-tónlistaratriði frá 1985 á góðgerðartónleikunum Fire Fight Australia sem voru haldnir til styrktar þeim sem eiga um sárt að binda vegna kjarreldanna í Ástralíu á sunnudaginn. Hátt í 10 milljónir dollara söfnuðust fyrir fórnarlömbin á tónleikunum.

Adam Lambert steig á svið í hlutverki Freddy Mercury sem lést árið 1991 og gítarleikarinn Brian May fór á kostum í lögum eins og stórsmellinum Bohemian Rhapsody.

23 listamenn og hljómsveitir tóku þátt í tónleikunum sem stóðu yfir í um tíu klukkutíma en meðal listamanna sem stigu á svið voru Alice Cooper, Olivia Newton-John og Michael Buble. 

Hægt er að sjá tónlistaratriði Queen í spilaranum hér að neðan.

mbl.is