Anna Kristjáns entist ekki á Tenerife ef hún drykki bara Dorada

Anna Kristjáns nýtur lífsins á Tenerife um þessar mundir en …
Anna Kristjáns nýtur lífsins á Tenerife um þessar mundir en þar hefur hún búið í sex mánuði. Hún spjallaði við Sigga Gunnars og Loga Bergmann um lífið og tilveruna á dögunum í beinni frá Paradís. Ljósmynd/K100

Anna Kristjáns­dótt­ir ræddi við Loga og Sigga um lífið og tilveruna í Síðdegisþættinum á K100 í beinni á Tenerife á dögunum. Hún fluttist til Tenerife, sem hún kallar Paradís, fyrir hálfu ári, nýtur lífsins í íbúð við sjóinn í Los Cristianos og heldur dagbók á Facebook.

Sagðist Anna hafa pakkað saman og farið í sólina strax og hún hætti að vinna í fyrrasumar.

Anna lifir nú rólyndislífi á Tenerife en hún sagðist vakna snemma alla daga og byrja daginn á að hella upp á könnuna, horfa á ferjuna fara fram hjá og fylgjast með mannlífinu.

Sagði hún að mikinn aga þyrfti til að halda sig frá drykkjum sem hún segir auðfáanlega alls staðar og bendir á að bjór sé á innan við evru á mörgum strandbörunum.  

Segist hún reyna að halda sig frá þjóðardrykknum sem hún segir að sé Dorada-bjór. 

„Ef ég drykki alltaf Dorada alla daga myndi ég ekki endast hérna. Þess vegna reyni ég að halda mig við sódavatnið,“ sagði hún.

Margt breyst á síðustu árum

Anna staðfestir að mikið hafi breyst í heimi transfólks frá því að hún kom fram opinberlega.

„Það er ekki hægt að líkja því saman,“ sagði hún. „Ég man eftir því að 1989 var transmanneskja á Íslandi lokuð inni á Kleppi og reynt að lækna hana eitthvað. Það tókst nú ekkert. Mér var boðið það að láta leggja mig inn. Þetta var svo gjörsamlega óþekkt,“ sagði Anna sem kveðst hafa haldið vitneskjunni um að hún væri trans fyrir sjálfa sig þrátt fyrir að hafa upplifað sig sem konu frá 5 ára aldri. 

Hlustaðu á allt viðtalið við Önnu Kristján í Síðdegisþættinum frá Tenerife í spilaranum hér að neðan. 

mbl.is