Flóni telur fólk hafa misskilið flutninginn

Flóni flutti eigin útgáfu af stórsmellinum Draumur um Nínu í …
Flóni flutti eigin útgáfu af stórsmellinum Draumur um Nínu í Söngvakeppninni á laugardag. Sumir heilluðust á meðan aðrir gerðu athugasemdir við ýmislegt, til að mynda „autotune-ið“. Skjáskot/RÚV

„Auðvitað er þetta skiljanlegt. Þetta er þjóðþekkt lag og þýðir mjög mikið fyrir fólk. En ég held að fólk hafi kannski misskilið í grunninn að ég var ekkert að reyna að endurnýja lagið. Ég var bara að gera einfalt og skemmtilegt skemmtiatriði fyrir Eurovision,“ segir Flóni í samtali við K100.is en heit umræða hefur verið á samfélagsmiðlum vegna ábreiðu hans á laginu „Draumur um Nínu“ sem flutt var í seinni undankeppni Söngvakeppninnar á laugardag. 

Þótti útgáfa Flóna á stórsmellinum mjög umdeild og voru mjög skiptar skoðanir á því hvað fólki fannst um hana.

„Þetta var mjög skemmtilegt verkefni en þetta er hjartans mál fyrir mörgum Íslendingum,“ bætir hann við. 

Segist Flóni hafa verið ánægður að heyra að Eyj­ólf­ur Kristjáns­son eða Eyfi eins og hann er jafnan kallaður, höfundur textans og lagsins, hafi verið sáttur við útgáfuna. Segir Flóni það vera mikinn heiður að fá að vera sá sem hafi fengið að taka ábreiðu af lagi Eyfa. 

Fólk á erfitt með að skilja tónlistina 

„Ég vona bara að fólk hafi haft gaman að þessu líka. Ef það virkaði ekki fyrir fólk þá er það bara svoleiðis. Það er ekkert sem ég get gert í því,“ segir Flóni.

„Þetta var öðruvísi. Þetta er eitthvað sem fólk á kannski erfitt með að skilja. Ég reyni að koma með „Futuristic sound“ en fólk skilur ekki þetta hefðbundna eins og „autotune“ og slíkt. Ég kem úr tónlistarheimi sem fólk hlustar kannski ekki á og svo mæti ég þarna og fólk skilur ekkert. Þetta er allt voða skiljanlegt.“

Ábreiða Flóna á laginu „Draumur um Nínu“, var rædd í morgunþættinum Ísland vaknar á K100 í gær. Hægt er að hlusta á umræðuna í spilaranum hér að neðan.

mbl.is