Dýrkar fjölskyldulífið og stefnir á brúðkaup

Emmsjé Gauti spjallaði við Loga Bergmann og Sigga Gunnars um …
Emmsjé Gauti spjallaði við Loga Bergmann og Sigga Gunnars um lífið og tilveruna í Síðdegisþættinum í sólinni á Tenerife í gær. Ljósmynd/Aðsend

„Fyrir sex árum, ef þið hefðuð sagt við mig að fimm manna fjölskylda væri á mínum snærum og við værum á Tenerife á einhverju „all inclusive“ hóteli hefði ég gubbað,“ sagði Gauti Þeyr Másson, betur þekktur sem Emmsjé Gauti í samtali við Síðdegisþáttinn á K100 á Tenerife. Rapparinn nýtur nú lífsins ásamt fjölskyldunni á sólareyjunni fögru en mætti í dagskrárliðinn „20 ógeðslega mikilvægar spurningar“ og spjallaði við Loga Bergmann og Sigga Gunnars um lífið og tilveruna.

Enn hægt að fara til framandi landa eftir Tenerife

„Maður er búinn að móta sér einhverja skoðun á hlutum sem maður veit ekkert um. Ég var bara búinn að láta aðra tala fyrir mig,“ sagði Gauti um breytta skoðun sína á Tenerife. Bætti hann við að það að ferðast til Tenerife þurfi ekki að þýða að maður mætti ekki ferðast til framandi landa eins og Kúbu. 

„Þú getur alveg farið í Bíó Paradís en samt alveg dýrkað að horfa á Fast & the Furious,“ bætti rapparinn við til útskýringar. 

„Ef þú horfir á þetta sem einhverja menningarferð ertu náttúrulega í einhverju rugli en ef þú horfir á þetta sem frí, bara að njóta sín og þurfa ekki að hugsa.“

Stefnir á brúðkaup á næsta ári

Gauti segir að margt hafi breyst í lífi hans á síðustu sex árum og viðurkennir að það séu alls konar hlutir sem hann geri núna sem hann hefði ekki gert fyrir nokkrum árum, meðal annars að fara til Tenerife. Hann er nú kominn með fjölskyldu og börn og búinn að stofna veitingastað.

„Það væri líka fáránlegt að ætlast til þess að tíminn stæði í stað og allt væri einhvern veginn eins. Maður fær leið á því þannig að þetta er bara „brilliant“ ég dýrka þetta. Þetta fjölskyldulíf fer manni vel. Svo á ég náttúrulega besta maka í heimi,“ sagði Gauti og bætti við: „Enda ætla ég að giftast henni á næsta ári.“

Var handtekinn fyrir að slá húfu af lögreglu

Í dagskrárliðnum „20 ógeðslega mikilvægar spurningar“ kom í ljós að Gauti hafi nokkrum sinnum verið handtekinn en aðeins fyrir eitthvað „ljúft“ og prakkaralegt en ekki neitt alvarlegt. „Ég hef aldrei verið handtekinn fyrir glæp en oft verið handtekinn fyrir strákapör,“ sagði Gauti og tók dæmi af því að hann hefði eitt sinn slegið húfuna af lögreglumanni af því að honum hefði þótt það fyndið. Hann tók þó fram að hann hafi ekki verið handtekinn síðan hann átti börn.  mbl.is