Fá aldrei leiða á góða veðrinu

Hjónin Rún Kormáksdóttir og Trausti Hafsteinsson hafa búið og starfað á Tenerife sl. 12 ár og þekkja samfélagið vel. Hjónin starfa nú sem fararstjórar fyrir Heimsferðir á eyjunni og taka á móti fólki sem heimsækir hana.

Siggi Gunnars og Logi Bergmann hittu Rún og Trausta í beinni af hótelinu Castle Harbour á Tenerife í Síðdegisþættinum í gær og ræddu við þau um lífið og tilveruna á Tenerife.

„Þetta átti upphaflega bara að vera eitt ár sem við ætluðum að búa hérna en þetta vatt upp á sig,“ sagði Rún í samtali við Síðdegisþáttinn. „Við komumst að því að þetta er yndislegur staður að vera á.“

Hjónin hafa ferðast mikið og starfað víða á Kanaríeyjunum en eru bæði þeirrar skoðunar að Tenerife sé þeirra uppáhaldseyja í eyjaklasanum. Sögðu þau eyjuna vera afar fjölbreytta, hún hefði upp á að bjóða frábært veður, góða hreyfingu, góðan mat, yndislega menningu og hlýtt og gestrisið fólk.

Gott að ala upp börn á Tenerife

Rún sagðist þó alltaf líta á sig sem Íslending þrátt fyrir að hafa búið lengi erlendis og viðurkenndi að hún saknaði heimahaganna reglulega.

Útsýnið af svölum hótelsins Castle harbour í Los Christianos er …
Útsýnið af svölum hótelsins Castle harbour í Los Christianos er ekki af verri endanum. mbl.is/k100

Sögðu Rún og Trausti að einstaklega gott væri að ala upp börn á Tenerife, en hjónin búa með tveimur dætrum sínum úti. Sögðu þau mikið framboð vera á tómstundum á eyjunni og að skólakerfið væri gott þó að það væri nokkuð strangara en kerfið heima.

Aðspurð sögðust þau stundum finna fyrir öfund Íslendinga sem þyrftu að búa við veðráttuna á klakanum. Sumir veltu því þó fyrir sér hvort þau söknuðu ekki kuldans.

„Það kemur oft upp spurningin: Færðu aldrei nóg af þessu? En raunverulega veit ég ekki hvernig ég get fengið leiða á góðu veðri,“ sagði Trausti.

„Það erfiðasta er að sakna fólksins og fjölskyldunnar. Sem betur fer eru vinir og vandamenn duglegir að koma. Það eru gæðastundirnar,“ sagði hann.

Rún segir að eitt það besta við að búa á Tenerife sé skortur á skordýrum. Það eru svo fáar pöddur. Allavega ekki pöddur sem þarf að óttast,“ sagði Rún og bætti við hversu þakklát hún væri yfir því hversu fáar moskítóflugur væru á eyjunni. „Ef þetta væri eins og víða í Evrópu gæti ég ekki búið hér,“ sagði hún.

Hlustaðu á viðtal við Rún og Trausta á K100 í spilaranum hér að neðan.

mbl.is