Byggja leikinn á 20 ára gamalli hugmynd

mbl.is/Unsplash

Samnorræna tölvuleikjafyrirtækið Mainframe Industries sem stofnað var af nokkrum íslenskum og finnskum reynsluboltum úr tölvuleikjaiðnaðinum síðasta haust vinnur nú að því markmiði að verða fyrsta tölvuleikjafyrirtækið til að búa til tölvuleik sérstaklega hannaðan fyrir svokallaða skýjaspilun sem gerir einstaklingum kleift að spila leikinn í hvaða tæki sem er í gegnum Netið.

Starfsmenn fyrirtækisins sem hafa m.a. unnið hjá CCP, Remedy og Next games vinna nú að því að hanna tölvuleikinn en frumgerð af honum mun vera kynnt á GTC, einni stærstu ráðstefnu heims fyrir tölvuleikjaframleiðendur, í næsta mánuði. 

„Það verður hægt að spila leikinn á öllum „platformum“. Í símum, spjaldtölvum, PC-tölvum eða Apple tölvum. Bara í hverju sem er. Það skiptir ekki máli því það er ekki háð kerfum,“ segir Börkur Eiríksson, einn af stofnendum Mainframe Industries í samtali við K100.is.

Stofnendur Mainframe Industries hafa mikla reynslu af tölvuleikjaheiminum.
Stofnendur Mainframe Industries hafa mikla reynslu af tölvuleikjaheiminum. Ljósmynd/Aðsend

Skýjaspilun framtíð tölvuleikjaheimsins

Hann telur skýjaspilun vera framtíð tölvuleikjaheimsins enda sé mun þægilegra fyrir notandann að þurfa ekki að fjárfesta í dýrum tölvum til að geta spilað flókna og þunga leiki. 

„Þetta er komið á það stig að þetta virkar og miklu betur en við bjuggumst við. Ég hélt að þetta myndi ekki verða komið fyrr en eftir svona 3 ár en þetta bara svínvirkar,“ segir Börkur. „Það vantar bara innviðina í kringum þetta frá veitunum úti eins og Amazon og öðrum sem eru að byggja þetta upp en það er ekki svo langt í að þetta verði komið.“

Börkur segist enn ekki geta gefið mikið upp um tölvuleikinn sem fyrirtækið er að hanna en segir að fyrirtækið sé að klára eina kynningarútgáfu af leiknum núna og að frumgerð af leiknum verði gefin út á árlegu tölvuleikjaráðstefnunni GTC sem verður haldin í mars næstkomandi í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Enn sem komið er séu þó fjögur til fimm ár í að leikurinn verði tilbúinn fyrir notendur.

20 ára gömul hugmynd

Segir Börkur leikinn vera fjölspilunarleik eins og EVE online sem framleiddur var af CCP en með ólíka sögu og gerist í öðrum heimi.

„Við fengum hugmynd að þessum leik fyrir tæplega 20 árum síðan. Það var bara ekki hægt að gera hann þá. Þannig að þetta fór bara á ís og við höfum verið með hann bak við eyrað. Og nú er kominn tími til að það sé hægt að gera þetta,“ segir Börkur. 

mbl.is

#taktubetrimyndir