Kennir fólki listina að daðra

Hægt verður að skella sér á grunnnámskeið í daðri á …
Hægt verður að skella sér á grunnnámskeið í daðri á Valentínusardaginn. mbl.is/Thinkstockphotos

Heppnin er með þeim sem vilja læra grunninn í daðri því að boðið verður upp á daðurnámskeið í miðbænum á Valentínusardaginn, næstkomandi föstudag. Er námskeiðið á vegum JCI Esju, samtaka ungra samfélagsmeðvitaðra leiðtoga, og mun Sigurður Sigurðsson daðursérfræðingur fara yfir mikilvægustu atriði daðurlistarinnar og kynna líkamstjáningu ástarinnar.

Ekki tælingarlist

„Þetta er fyrst og fremst líkamstjáningarnámskeið. Það verður farið í helstu atriði daðursins og helstu merki hrifningar,“ segir Sigurður Sigurðsson í samtali við mbl.is. Segir hann námskeiðið ekki flokkast sem svokallað „pickup artistry,“ eða tælingarlist sem er að hans sögn „allt annað“. 

„Þetta er grunnnámskeið í því hvort manneskja sýnir þér áhuga eða ekki. Þetta eru í rauninni fyrstu skrefin,“ segir hann. „Svo verður farið í helstu hindranir eins og oft með höfnun og svona.“

Segir Sigurður námskeiðið vera góðan grunn fyrir þá sem telja sig ekki vera góða daðrara eða óttist daður. Að hans sögn er eina leiðin til að brjótast út úr hræðslunni við að daðra að hoppa út í djúpu laugina og prófa það.

Prófa þekkinguna í miðbænum eftir á

„Með smá þekkingu er auðveldara að hoppa út í djúpu laugina. Ég er að gefa fólki kúta til að hoppa út í,“ segir hann. 

Sigurður segir að það verði farið í nokkrar verklegar æfingar á námskeiðinu og eftir námskeiðið bjóðist fólki svo að fara út á „djammið“ í miðbænum til að æfa sig. 

„Svo á fólk að spotta og fylgjast með. Það er langbesta aðferðin. Og svo að prófa náttúrulega sjálft,“ segir Sigurður. 

„Þegar maður fer að taka eftir þessari ómeðvituðu líkamstjáningu þá sér maður hana úti um allt,“ segir hann. „Þegar fólk er að sýna hrifningu til dæmis og þegar fólk hefur áhuga á annarri manneskju þá beitir það ómeðvitaðri líkamstjáningu.“

Sjálfur hefur Sigurður reynslu af hræðslunni við að daðra en hann byrjaði að lesa sér til um líkamstjáningu og stúdera listina til að reyna að takast á við hræðsluna. 

„Það er alltaf vinsælt að forvitnast um þessa líkamstjáningu ástarinnar. Fólk hefur heyrt um hana. Klassíska dæmið er það sem maður hefur heyrt frá flestum strákum að stelpur fikti í hárinu á sér þegar þær eru hrifnar af strákum. En þetta er ekki alveg svo einfalt,“ segir Sigurður.   

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist