Getur fundið ást lífs þíns eða kisu lífs þíns

Ragnheiður Birgisdóttir og Gígja Sara Björnsson eru miklar kisuvinkonur og …
Ragnheiður Birgisdóttir og Gígja Sara Björnsson eru miklar kisuvinkonur og hafa fundið heimili fyrir um 50 kisur eftir stofnun Kattakaffihússins. mbl.is/Hari
  • Kattakaffihúsið býður upp á hraðstefnumót á Valentínusardaginn
  • Gestir fá 5-7 mínútur til að spjalla við hvern einstakling
  • Elvis-eftirherma stýrir kvöldinu
  • Fimm læður verða á staðnum til að létta fólki lund

„Þú getur annað hvort hitt ást lífs þíns eða ást lífs þíns í formi kattar,“ segir Ragnheiður Birgisdóttir annar af stofnendum Kattakaffihússins sem mun bjóða upp á hraðstefnumót eða „speed-dating“ á Valentínusardaginn fyrir einhleypa kisuvini. Fimm læður í heimilisleit eru nú búsettar á kaffihúsinu en Kattakaffihúsið hefur fundið heimili fyrir um 50 ketti frá því það opnaði fyrir rúmum tveimur árum. 

Mía kisa er spennt fyrir Valentínusardeginum.
Mía kisa er spennt fyrir Valentínusardeginum. Facebook/Kattakaffihusid

Elvis-eftirherma verður á staðnum sem mun sjá um að stýra kvöldinu sem byrjar klukkan 19:30 á föstudaginn en takmarkað pláss er á kvöldið en upplýsingar til að skrá sig á viðburðinn er að finna á Facebook-síðu Kattakaffihússins

„Pælingin er að hittast í kósý umhverfi. Kisurnar gera þetta svona meira kósý, rólegt og skemmtilegt. Þetta eru fimm til sjö mínútur á mann sem þú hittir hverja manneskju sem kemur og hún situr á móti þér og þið spjallið. Við verðum svo með einhverjar fyndnar og skemmtilegar spurningar ef fólk er eitthvað uppiskroppa með umræðuefni,“ segir Ragnheiður.

Læðurnar vísar til að taka þátt í stefnumótunum

„Þetta er fyrir þá sem vilja hitta fólk „in real life“ eins og maður segir, í eigin persónu frekar en í einhverju appi eða á einhverjum miðli,“ segir hún.

Það verður án vafa kósý stemning á Kattakaffihúsinu á Valentínusardag.
Það verður án vafa kósý stemning á Kattakaffihúsinu á Valentínusardag. Facebook/Kattakaffihusid

Ragnheiður segir að læðurnar séu alveg vísar til að taka þátt í hraðstefnumótunum. 

„Þær eru svo fyndnar að þær velja sér oft fólk sem þær fíla. Kisur eru almennt fyndnar með að velja sér fólk. Það er mjög algengt að þær skríði bara í fangið á einhverjum sem þeim lýst vel á, taki smá lúr og biðji um knús. En það gera þær náttúrulega ekki við alla. Þær gera upp á milli fólks,“ segir Ragnheiður og hlær.

„En þær verða þarna og það gerir þetta líka aðeins afslappaðra. Fólk getur þá klappað kisunum og það er hægt að spjalla um þær. Þær eru svona aðeins til að taka stressið burt ef fólk er eitthvað stressað.“

Kisurnar einnig í leit að lífsförunaut

Ragnheiður segir alveg eins líklegt að kisurnar finni lífsförunaut sinn á Valentínusardaginn.

„Ef þú finnur ekki ástina þarna um kvöldið þá hittir þú kannski kisu lífs þíns. Það gæti alveg gerst,“ segir hún. „Við viljum að fólk komi og hitti kisurnar. Það er einhver ástæða fyrir því að þú tengir við tiltekna kisu. Þannig að við erum mjög vandlátar á hvernig við pörum saman nýju heimilin og kisurnar. Það þarf allt að „matcha“ líka.“

mbl.is