Fjölmargir giftu sig með andlitsgrímur

Nýbökuð hjón létu hræðslu við kórónuveiruna ekki stoppa sig við …
Nýbökuð hjón létu hræðslu við kórónuveiruna ekki stoppa sig við að taka þátt í fjöldabrúðkaupsathöfn en huldu vit sín með andlitsgrímum til að reyna að forðast smit. AFP

Mörg þúsund pör, mörg með andlitsgrímur, létu pússa sig saman í fjöldabrúðkaupi í Unification kirkjunni í Suður-Kóreu á föstudag, þrátt fyrir viðvaranir frá yfirvöldum landsins um smithættu vegna kórónuveirunnar. Þar hafa 24 tilfelli COVID-19 kórónuveirunnar greinst og er fjöldi manns í sóttkví. Þetta kemur fram fréttavef AFP. 

Var andlitsgrímum dreift til 30 þúsund gesta sem sóttu athöfnina og kusu margir að hylja vit sín til að forðast smit. 

„Finnst eins og ég verði varinn fyrir veirunni í dag“

„Ég er svo upp með mér að ég sé að gifta mig í dag,“ sagði Choi Ji-Young sem hitti eiginmann sinn í kirkjunni aðeins fyrir tveimur mánuðum. 

„Það væri lygi ef ég segði að ég hefði engar áhyggjur af sjúkdómnum,“ sagði 21 árs gamall háskólanemi. „En mér finnst eins og ég verði varinn fyrir veirunni í dag.“

Mörg þúsund pör létu pússa sig saman í fjöldaathöfn í …
Mörg þúsund pör létu pússa sig saman í fjöldaathöfn í Suður-Kóreu á föstudag. AFP

Mörgum fjöldaathöfnum eins og tónleikum og hátíðum hefur verið aflýst í Suður-Kóreu vegna hræðslu við COVID-19 kórónuveiruna en stjórn Unification kirkjunnar tók ákvörðun um að halda sig við fjöldabrúðkaupið sem hefur tekið fjögur ár að skipuleggja. 

Meðlimir kirkjunnar frá Kína, þaðan sem veiran á upptök sín, voru þó vinsamlegast beðnir um að taka ekki þátt í athöfninni.

mbl.is