Sýndi fram á mikilvægi handþvottar

Brauðsneiðarnar komu misvel út úr tilraun nemendanna en verst kom …
Brauðsneiðarnar komu misvel út úr tilraun nemendanna en verst kom út brauðsneiðin sem hafði komist í snertingu við fartölvur. Jaralee Annice Metcalf/Facebook

Handþvottur skiptir gríðarlegu máli til að koma í veg fyrir sýkingarhættu og dreifingu sjúkdóma eins og kórónuveirunnar sem nú geisar víða um heim.

Jaralee Metcalf kennari í Idaho gerði tilraun til að sýna nemendum sínum fram á mikilvægi handþvottar til að drepa bakteríur eftir að hafa verið orðin þreytt á því að vera sífellt veik eftir kennslu.

Lét hún nemendur sína, með mishreinar hendur, snerta fimm mismunandi hvítar brauðsneiðar af sama brauðinu og setti hverja sneið í mismunandi plastpoka. Fylgdist bekkurinn svo með því hvernig ástand brauðsins breyttist á einum mánuði.

Brauðið sem snerti fartölvur kom verst út

Var eitt brauðið snert með óhreinum höndum, annað var látið komast í snertingu við fartölvur í skólastofunni, eitt var snert með sprittuðum höndum og annað með nýþvegnum höndum sem höfðu verið þvegnar með sápu og volgu vatni. Eitt brauð var til viðmiðunar, ferskt og ósnert.

Myndir segja yfirleitt meira en þúsund orð en brauðsneiðin sem komst í snertingu við fartölvurnar kom verst út úr rannsókninni en brauðsneiðin var orðin nánast algræn af myglu í lok tilraunarinnar. 

Fartölvur eru oft stútfullar af bakteríum.
Fartölvur eru oft stútfullar af bakteríum. Jaralee Annice Metcalf/Facebook

Brauðið sem snert var af skítugum höndum var einnig mjög illa farið í lok tilraunarinnar.

Brauðið sem snert var með skítugum höndum varð ekki mjög …
Brauðið sem snert var með skítugum höndum varð ekki mjög geðslegt í lok tilraunarinnar. Jaralee Annice Metcalf/Facebook

Ekki nóg að spritta 

Brauðið sem var snert af sprittuðum höndum kom einnig nokkuð illa út sem bendir til þess að ekki sé alltaf nóg að nota handspritt til að koma í veg fyrir bakteríur. 

Best kom brauðsneiðin út sem var snert með höndum sem höfðu verið þvegnar með volgu vatni og sápu en það var nánast nákvæmlega eins og ósnerta brauðið. 

Ekki er alltaf nóg að spritta sig áður en matur …
Ekki er alltaf nóg að spritta sig áður en matur er snertur. Jaralee Annice Metcalf/Facebook
Besta leiðin til að koma í veg fyrir sýkla er …
Besta leiðin til að koma í veg fyrir sýkla er að þvo hendur með volgu vatni og sápu. Jaralee Annice Metcalf/Facebook

Handþvottur mikilvægasta sýkingavörnin

Á vef landlæknis má finna afar greinargóðar upplýsingar um handþvott en þar kemur fram að handþvottur er mikilvægasta sýkingavörnin sem hægt er að viðhafa enda sé snerting, bein og óbein, langalgengasta smitleið sýkla milli manna. 

Þar er tekið fram að mikilvægt sé að þvo hendur með vatni og sápu ávallt: 

  • áður en hafist er handa við matreiðslu
  • fyrir og eftir máltíðir
  • eftir salernisferðir
  • eftir beina snertingu við sár, blóð og hvers kyns líkamsvessa, manns eigin eða annarra
  • eftir bleiuskipti á barni
  • eftir snertingu við dýr

Landspítalinn hefur einnig gefið út ítarlegt 60 sekúndna langt myndband með leiðbeiningum um það hvernig skuli þvo hendur sem best.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist